spot_img
Sunday, October 6, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2020: Hverjir áttu vont ár í MMA heiminum?

2020: Hverjir áttu vont ár í MMA heiminum?

Það er komið að því að gera upp árið 2020 í MMA heiminum. Að þessu sinni ætlum við að skoða þá bardagamenn sem áttu einstaklega slæmt ár.

Á næstu dögum munum við gera upp árið en farið var rækilega yfir árið í áramótaþætti Tappvarpsins sem kom út á dögunum.

2020 var ömurlegt ár fyrir margar sakir og margir sem áttu um sárt að binda. Það voru þó nokkrir í MMA heiminum sem áttu ekkert sérstaklega gott ár á ferlinum fyrir utan kórónuveiruheimsfaraldurinn. Hér förum við yfir fimm bardagamenn sem áttu vont ár en farið var yfir allt árið í Tappvarpinu sem hlusta má á hér að neðan.

5. Jon Jones

Það er kannski eilítið skrítið að setja Jon Jones á þennan lista enda vann hann sinn eina bardaga á árinu. Hans eini bardagi var gegn Dominick Reyes í febrúar en í sumar ákvað hann að láta léttþungavigtarbeltið af hendi til að eltast við þungavigtina.

Það sem gerir þetta að slæmu ári hjá Jon Jones er tvennt; ölvunarakstur og slátrun á fyrrum andstæðingum hans. Jon Jones var tekinn fyrir ölvunarakstur í vor þegar samkomubann ríkti í Albuquerque. Myndband af handtöku hans var gert opinbert þar sem hann sagðist einfaldlega hafa verið þreyttur á að sitja heima og gera ekki neitt. Nokkrum dögum fyrr hafði Jones hvatt aðdáendur sína til að halda kyrru fyrir heima til að sporna gegn dreifingu kórónuveirunnar en gat greinilega ekki fylgt eigin ráðum. Hann var einnig sakaður um að hafa skotið af byssu á víðavangi en var á endanum bara ákærður fyrir ölvunaraksturinn.

Síðustu þrír sigrar Jon Jones (gegn Anthony Smith, Thiago Santos og Dominick Reyes) hafa verið síður en svo sannfærandi. Það má færa rök fyrir að hann hafi tapað tveimur bardaganna eftir dómaraákvörðun en frammistöður hans upp á síðkastið hafa ekki verið þær bestu á ferlinum. Á þessu ári hefur þessum þremur síðustu andstæðingum Jones einfaldlega verið pakkað saman. Anthony Smith tapaði tveimur bardögum mjög illa áður en hann náði að klóra í bakkann með góðum sigri á Devin Clark í nóvember. Thiago Santos var kláraður af hinum 41 árs gamla Glover Teixeira í nóvember og Dominick Reyes var rotaður af Jan Blachowicz. Síðustu þrír andstæðingar Jones hafa því verið teknir í bakaríið á þessu ári á meðan Jones var í vandræðum með tvo af þeim og tókst ekki að klára þá.

Jones lét beltið af hendi í léttþungavigt til að eltast við þungavigtina en enn er óljóst hver hans fyrsti andstæðingur verður í þungavigtinni. Það gæti svo farið að fyrsti bardagi Jones í þungavigt verði ekki einu sinni um titil sem væri sérstakt. Á sama tíma hefur UFC staðfest titilbardaga Israel Adesanya í léttþungavigt gegn Blachowicz og geti þar með unnið beltið sem Jones lét af hendi. Jones getur einfaldlega ekki hætt að skiptast á orðum við Adesanya á samfélagsmiðlum og væri það furðuleg staða ef Adesanya væri með beltið hans Jones á meðan Jones væri enn að bíða eftir titilbardaga í þungavigt.

Að lokum má ekki gleyma að Jones gat ekki leyft Khabib Nurmagomedov að eiga eina kvöldstund sem sá besti pund fyrir pund heldur þurfti hann að fara í tilgangslaus rifrildi við aðdáendur um að hann væri sá besti í stað þess að leyfa Khabib að eiga bara sína stund. Það hafa örugglega einhverjir átt verra ár en Jon Jones en þetta ár var ekki það besta fyrir ferilinn og hans ímynd.

4. PFL

Professional Fighters League hóf göngu sína árið 2017 og hefur verið í stöðugum uppgangi síðan þá. 2020 átti að vera stórt ár hjá PFL eftir að hafa samið við Rory MacDonald og fleiri en bardagasamtökin náðu ekki að halda eitt einasta bardagakvöld á þessu ári vegna kórónuveirufaraldursins. Einhverjir bardagamenn reyndu að fá bardaga annars staðar í staðinn og gaf PFL nokkrum leyfi til þess. Þeir komu þó í veg fyrir að Ante Delija gæti barist í UFC aðeins nokkrum dögum fyrir bardagann hans þar sem hann var enn á samningi hjá þeim að mati PFL.

PFL hefur reynt að borga bardagamönnum sínum mánaðarlaun á meðan þeir sitja heima sem sumir hafa verið sáttir með en aðrir hafa verið ósáttir með og vilja bara fá að berjast annars staðar. Á meðan öll stóru bardagasamtökin (UFC, Bellator, ONE, Rizin, Cage Warriors, KSW) héldu bardagakvöld á þessu ári án áhorfenda gerði PFL ekki neitt. PFL klárar þó árið með samningi við Anthony Pettis og vonast eftir betra ári 2021.

Embed from Getty Images

3. Tyron Woodley

Tyron Woodley átti ekkert sérstakt ár 2019 en 2020 var verra. Hann barðist tvo bardaga og tapaði þeim báðum mjög einhliða. Fyrst mætti hann Gilbert Burns sem einfaldlega pakkaði honum saman yfir fimm lotur. Hann mætti síðan erkióvini sínum Colby Covington og þar tapaði hann öllum lotunum þar til hann rifbeinsbrotnaði eftir fellu í fimmtu lotu.

Woodley hefur því tapað samtals 14 lotum í röð áður en hann var kláraður í 15. lotunni. Það er nógu erfitt en að tapa síðan fyrir Colby Covington sem stendur fyrir allt sem Woodley er á móti er enn verra.

Embed from Getty Images

2. Marlon Moraes

Marlon Moraes var sjóðandi heitur um tíma og fékk titilbardaga gegn Henry Cejudo árið 2019. Síðan þá hefur hann verið skugginn af sjálfum sér og verður bara verri og verri. Á þessu ári mætti hann Cory Sandhagen í október og þar tapaði hann með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Moraes var ósáttur með frammistöðuna og vildi fara strax aftur í búrið. Hann fékk því bardaga gegn Rob Font í desember og átti það að vera gott tækifæri til að komast aftur á sigurbraut. Aftur var Moraes kláraður en í þetta sinn var það eftir tæknilegt rothögg í 1. lotu.

Tvær hrikalegar frammistöður hjá Moraes á árinu og ekki var frammistaðan gegn Jose Aldo í desember 2019 eitthvað til að hrópa húrra fyrir. Sjálfstraustið er í molum hjá Moraes og þarf hann að rífa sig í gang ef ekki á illa að fara. Þetta er ár sem Moraes vill eflaust gleyma sem fyrst.

1. Leon Edwards

Leon Edwards hefur ekki átt sjö dagana sæla á þessu ári og bendir hann fingrinum á Covid-19. Edwards átti loksins að fá stóra bardagann sinn og stóra tækifærið á þessu ári. Edwards átti að mæta Tyron Woodley í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í London í mars. Á þeim tíma var heimsfaraldurinn að hefjast og var bardagakvöldið fellt niður með u.þ.b. viku fyrirvara. Edwards var fastur á Englandi og gat ekki ferðast til Bandaríkjanna og því var Woodley bókaður gegn Gilbert Burns. Sá pakkaði Woodley saman í maí og tryggði sér titilbardaga. Edwards hefði getað verið í sömu stöðu en Covid kom í veg fyrir það.

Edwards var síðan í erfiðleikum með að fá andstæðinga og neitaði nokkrum bardögum – meðal annars gegn Stephen Thompson. UFC nennti ekki lengur að bíða eftir Edwards og fjarlægði hann af styrkleikalistanum. Edwards samþykkti því að mæta Khamzat Chimaev og var aftur settur á styrkleikalistann sólarhringi síðar.

Nokkrum vikum fyrir bardagann greindist Edwards með kórónuveiruna sjálfur og þurfti að bakka úr bardaganum. Edwards fékk síðan slæmu útgáfuna af veirunni og var illa haldinn. Hann hefur þó jafnað sig og var bókaður aftur gegn Chimaev en sá bardagi féll niður á dögunum eftir að í ljós kom að Chimaev væri ekki búinn að jafna sig á veirunni. Edwards klárar því árið án þess að fá að berjast og er aftur án bardaga. UFC ætlar þó að reyna að bóka Edwards gegn Chimaev síðar á næsta ári.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular