Friday, September 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða39 klukkustunda ferðalag Sunnu til Kansas

39 klukkustunda ferðalag Sunnu til Kansas

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir berst sinn annan atvinnubardaga í Invicta núna á laugardagskvöldið í Kansas. Ferðalagið til Kansas gekk ekki þrautalaust fyrir sig en það tók 39 klukkustundir.

Bardaginn fer fram í hinu sögufræga húsi Scottish Rite Temple í Kansas City. Mjölniskonan Sunna mætir Mallory Martin sem er 23 ára Bandaríkjamær með einn atvinnubardaga líkt og Sunna. Sunna barðist sinn fyrsta atvinnubardaga í september síðastliðinn þegar hún sigraði Ashley Greenway.

Bardagakvöldið verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á föstudaginn og er bardagi Sunnu þriðji bardagi kvöldsins. Útsending hefst klukkan 12 á miðnætti og má gera ráð fyrir að Sunna stígi í búrið lauslega fyrir klukkan eitt.

Sunna og föruneyti hennar úr Mjölni eru núna komin til Kansas City eftir ansi skrautlegt ferðalag sem hófst á aðfararnótt sunnudags en lauk ekki fyrr en síðdegis á mánudag. Flugið tafðist og ferðaáætlun riðlaðist. Við tók röð atvika og óhappa, aflýstra flugferða og annarra óþæginda.

„Síðustu vikuna fyrir bardaga þá er ég annars vegar að drekka afar mikið af vatni með tilheyrandi klósettferðum og hins vegar er ég á þaulskipulögðu og kolvetnissnauðu mataræði. Þetta er allt saman í fínasta lagi ef ég er með matarskammtana mína klára og baðherbergi í seilingarfjarlægð. Að fara í langt ferðalag er talsverð áskorun í þessu ljósi og þegar ferðaplanið byrjaði að riðlast þá hafði það sín áhrif. Flugið frá Keflavík tafðist um 6 klukkutíma. Þannig hófst ferðin,“ segir Sunna er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Flugvélin var í þokkabót stappfull og ég var í miðjusæti á milli tveggja eldri kvenna, sem þó reyndar voru afar indælar. Stuttu eftir að flugið hófst þá sofnaði konan sem var í gangsætinu og þar sem ég þurfti að komast á klósettið á kortersfresti þá var smá bras að klifra yfir hana og passa að hún vaknaði ekki. Þetta slapp nú til án teljandi vandræða en þaðan fór ferðin að súrna. Þegar við komum til New York þá vorum við búin að missa af tengifluginu okkar og við þurftum að fara yfir á annan flugvöll til að ná því flugi sem okkur var úthlutað í staðinn. Það tók sinn tíma og þegar við komum loksins þangað þá var okkur tilkynnt að fluginu hefði verið aflýst og að við þyrftum að finna okkur gistirými einhvers staðar því það yrði ekki yrði flogið fyrr en morguninn eftir.“

„Á þessum tímapunkti var ég búin að klára alla matarskammtana sem ég hafði útbúið fyrir ferðalagið og var orðin verulega svöng og þó nokkuð frústreruð. Það var ekki auðvelt að finna matsölustað sem bauð máltíðir sem samræmdust mínu prógrammi. Allt sem í boði var meira og minna saltað, sykrað og stappfullt af óhollustu. Okkur tókst þó á endanum að finna salatbar þar sem einnig voru boðnir heitir réttir. Ég gat samið við kokkinn þar um að græja fyrir mig þrjú egg og svo borðaði ég bara vel af káli með því. Við það varð allt betra.“

„Eitt og annað misskemmtilegt gekk á í kjölfarið en það sem máli skiptir er að við erum núna komin til Kansas. Þetta var 39 klukkustunda ferðalag sem núna er komið í baksýnisspegilinn og hinn almenni lokaundirbúningur fyrir bardagann er því loksins hafinn. Það sem drepur mann ekki styrkir mann og ég er er ekki búin að ferðast alla þessa vegalengd með öllum þessum flækjum til neins annars en að klára ætlunarverk mitt.“

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Heilmikil dagskrá er framundan í vikunni þar sem Sunna spjallar við fjölmiðla í dag. „Þessi dagur er að vissu leyti áreynslumeiri en sjálfur bardaginn,“ segir Sunna og hlær og bætir við; „Ég er svo miklu betur undirbúin í að fara inn í búr og berjast heldur en að pósa, tala og brosa fyrir framan myndavélina en ég veit vel að þetta er ekki síður mikilvægur hluti af starfinu mínu. Ég var svakalega stressuð á fjölmiðladeginum í fyrra en þá var ég náttúrulega líka að gera þetta í fyrsta skipti. Pressan sem fylgdi því að vera umkringd bardagakonum sem ég hef litið upp til í mörg ár, vera innan um allan þennan fjölda af fjölmiðlafólki og með hugann við að koma vel fyrir og tala skýrt reyndi talsvert á þó svo að dagurinn hafi náttúrulega verið mjög skemmtilegur. Þetta verður miklu auðveldara núna því ég er reynslunni ríkari.“

Vigtunin fer svo fram á morgun en Sunna keppir í -52 kg strávigt eða 115 punda flokki. „Ég er á undan áætlun með þyngdina og mun ekki þurfa að hafa mikið fyrir því að ná réttri vigt héðan. Ég byrjaði fyrir 5 vikum að hreinsa til í mataræðinu og vinna mig markvisst niður að vigtinni sem ég þarf að ná. Þetta er því búið að vera mjög milt og viðráðanlegt. Það er ekkert óheilbrigði í gangi og köttið eins og við köllum það í þessum bransa er búið að ganga fullkomlega. Ég gerði þetta á sama hátt seinast, líkaminn og hausinn þekkja þetta fyrir vikið og þess vegna er þetta búið að ganga enn betur núna,“ segir Sunna.

Í vigtuninni mætast andstæðingarnir svo augliti til auglits á sviði fyrir framan áhorfendur. „Ég er mjög ánægð með minn undirbúning fyrir bardagann og ég óttast andstæðing minn ekki neitt. Það verður því gaman að líta hana augliti til auglitis og finna hvort það sé gagnkvæmt,“ segir Sunna og hlær.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular