Rapparinn og fjárfestirinn Curtis Jackson, betur þekktur sem 50 Cent, mun gefa milljón dollara í reiðufé til sigurvegara veltivigtarmóts Bellator.
Bellator setur af stað í kvöld 8-manna útsláttarmót í veltivigtinni. Sigurvegarinn í þessu átta manna móti fær eina milljón dollara (111 milljónir íslenskra króna) í reiðufé frá 50 Cent.
50 Cent er í samstarfi við Bellator í gegnum fatalínu sína Get the Strap og lúxus kampavínið sitt Le Chemin du Roi. Í fyrstu þegar mynd af 50 Cent og Scott Coker birtist leit út fyrir að rapparinn væri á leið í búrið. Það er fjarri sannleikanum og er hann einungis í samstarfi við Bellator út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.
Veltivigtarmótið hefst í kvöld á Bellator 206 með bardaga Douglas Lima og Andrey Koreshkov. Veltivigtarmeistarinn Rory MacDonald berst í kvöld um millivigtartitil Bellator þegar hann mætir Gegard Mousasi en MacDonald er einnig partur af veltivigtarmótinu. MacDonald mætir Jon Fitch í fyrstu umferð. Sigurvegari mótsins verður veltivigtarmeistari Bellator og mun einnig ganga frá mótinu milljón dollurum ríkari.