Friday, April 26, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á Bellator 206

Nokkrar ástæður til að horfa á Bellator 206

Bellator er með frábært bardagakvöld annað kvöld í San Jose í Kaliforníu. Hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á Bellator 206 annað kvöld.

Bardagakvöldið verður sýnt á nýju DAZN streymisþjónustunni og á Channel Five á Bretlandi. DAZN er sem stendur bara aðgengilegt í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Sviss, Kanada og Japan en eflaust er hægt að finna leiðir til að horfa frá Íslandi. DAZN er með ýmsar íþróttir á sínum snærum og borga notendur ákveðið mánaðargjald fyrir þjónustuna. En nóg um það og skoðum bardagana.

Ofurbardagi tveggja meistara

Í aðalbardaga kvöldsins mætast tveir ríkjandi meistarar. Millivigtarmeistarinn Gegard Mousasi ver beltið sitt og fer veltivigtarmeistarinn Rory MacDonald upp til að skora á Mousasi. Rory MacDonald virðist fá lausan tauminn í Bellator og er það bara skemmtilegt fyrir okkur. Hann vildi fá að fara í þungavigtarmót Bellator en það var aðeins of mikið fyrir Scott Coker og félaga. Nú ætlar hann að reyna að ná í sitt annað belti í Bellator og verða „double champ“ en svo tekur við spennandi útsláttarmót í veltivigt. Mousasi fær sjálfur gott sviðsljós í Bellator og má búast við afar tæknilega góðum bardaga á morgun.

Veltivigtarmótið hefst

Eitt það skemmtilegasta sem Bellator er að gera í dag er 8-manna útsláttarmótið í veltivigt. Fyrsta umferð hefst á morgun en þá mætast þeir Andrey Koreshkov og Douglas Lima. Þetta verður þriðji bardagi þeirra en hvor um sig hefur náð einum sigri hvor. Báðir bardagar þeirra voru skemmtilegir og getum við átt von á svipaðri skemmtun á laugardagsnóttina.

Einn sá efnilegasti

Aaron Pico byrjaði brösulega en hefur náð að snúa taflinu sér í vil. Pico er einn efnilegast í MMA í dag en þessi 21 árs drengur er nú 3-1 í MMA – allt sigrar í 1. lotu. Á morgun fær hann Leandro Higo sem barðist um bantamvigtartitilinn síðast en fer nú upp í fjaðurvigt. Þetta ætti því að verða erfiðari þraut en hann hefur hingað til fengið og gæti orðið ansi flottur bardagi.

Allt er þá fernt er?

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Wanderlei Silva og Quinton ‘Rampage’ Jackson í þungavigt. Þetta er í fjórða sinn sem þeir mætast og það í þriðju bardagasamtökunum. Wanderlei Silva vann fyrstu tvo bardagana í Pride, Rampage steinrotaði Wanderlei í UFC fyrir áratug síðan og nú mætast þeir í Bellator. Þetta eru gamlar goðsagnir sem eru langt frá sínu besta en gæti orðið áhugavert.

Fyrstu bardagarnir hefjast á miðnætti á íslenskum tíma en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2 á íslenskum tíma.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular