Kórónaveiran hefur áhrif á bardagamenn eins og aðrar stéttir. Ótal bardagakvöld hafa fallið niður og voru nokkrir íslenskir bardagamenn með bardaga sem féllu niður.
Mjölnir var með sjö bardaga staðfesta á næstu vikum sem hafa nú allir fallið niður. Hætt hefur verið verið bardagakvöldin enda lítið um íþróttir um allan heim þessa dagana.
Þeir Julius Bernsdorf (2-2) og Viktor Gunnarsson (0-0) áttu að berjast áhugamannabardaga á NFC bardagakvöldinu í Þýskalandi í vikunni.
Julius er Þjóðverji sem hefur búið á Íslandi undanfarin ár og fylgdist hann vel með fréttum frá Þýskalandi af veirunni. Í síðustu viku ákvað Mjölnir að hætta við bardagana enda óljóst hvort bardagakvöldið myndi fara fram vegna kórónaveirunnar. Á mánudaginn ákvað NFC að hætta við bardagakvöldið og sluppu þeir Julius og Viktor því við fýluferð.
Fjórir Íslendingar áttu að berjast á Rise and Conquer bardagakvöldinu í Sunderland þann 26. apríl en hætt hefur verið við bardagakvöldið vegna kórónaveirunnar.
Bjarki Ómarsson (2-1 sem atvinnumaður) átti að berjast atvinnubardaga í fjaðurvigt á kvöldinu en hann barðist síðast í september í fyrra. Bjarki Eyþórsson (1-0), Kári Jóhannesson (1-2) og Venet Banushi (1-0) voru síðan allir með áhugamannabardaga á sama kvöldi en ekkert verður úr bardögum þeirra.
Björn Lúkas Haraldsson (7-1 sem áhugamaður) átti að berjast sinn fyrsta atvinnubardaga í Svíþjóð í apríl en hætt hefur verið við bardagakvöldið og fær hann því ekki sinn fyrsta atvinnubardaga í bráð.