spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÁ diskinn minn: Sunna Rannveig

Á diskinn minn: Sunna Rannveig

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir er fremsta bardagakona landsins og stefnir á að taka sinn fyrsta atvinnumannabardaga í ár. Við fengum að skyggnast aðeins inn í mataræðið hjá henni og hennar uppáhalds rétt.

Á diskinn minn er liður hjá okkur þar sem við fáum að forvitnast um mataræðið hjá bardagafólkinu okkar. Sunna Rannveig varð Evrópumeistari í MMA í nóvember og ætlar sér að taka atvinnumannabardaga í ár.

Hvernig er mataræðið þitt svona dags daglega?

Ég byrja alla morgna á hveitigrasskoti og geri mér svo safa með t.d. gulrótum, rauðrófum, engifer, eplum, sellerí, túrmerik, berjum, bönunum, kakónibbum, maca dufti og alls konar sem mér finnst gott hverju sinni. Stundum tek ég bara það sem er til í ísskápnum og djúsa það í safa.

Ég fæ mér alltaf lýsi, fjölvítamín og D–vítamín og hafragraut með chia fræjum og kókosflögum. Svo fer ég í ísskápinn og bæti við því sem ég finn eins og banana, berjum og svo er líka gott að setja dass af hunangi. Stundum fæ ég mér bara egg og beikon eða skyr og epli eða annað gott. Í millimál fæ ég mér avókadó, egg, hnetur, harðfisk og ef ég þarf skjóta orku finnst mér gott að fá mér dökkt súkkulaði með hnetusmjöri eða hnetudrauminn á Lifandi Markaði.

Fyrir hverja æfingu eða á meðan ég æfi fæ ég mér BCAA amínósýrur og eftir hverja æfingu fæ ég mér blöndu af kolvetnum og próteinum og þykir mér þá fljótlegast að blanda mér próteinsjeik sem ég fæ hjá Perform.is og banana.

Í hádegis- og kvöldmat fæ ég mér fisk, kjúkling eða kjöt með annað hvort hýðisgrjónum eða kartöflum og svo fullt af grænmeti. Ég er alltaf með Mjölnisskvísuna mína [brúsi] fulla af vatni á kantinum og drekk vatn allan daginn, alla daga og geymi brúsann á náttborðinu ef ég vakna þyrst og byrja alltaf daginn á því að skvísa skvísuna. Áður en ég fer að sofa fæ ég mér magnesíum.

Ég fæ mér alveg stundum djúsí borgara, pizzu eða eitthvað annað ekki eins hollt. Flesta daga þá vinn ég mér inn fyrir því á æfingum eða tek jafnvel hvíldardag og geri vel við mig. Á laugardögum fer ég með stelpunni minni í nammilandið en við höfum líka oft fengið okkur dökkt súkkulaði í staðinn og dýft skornum ávöxtum t.d. jarðaberjum, bönunum og bláberjum í brætt súkkulaði.

Hvað reyniru að borða mikið af?

Ég reyni að borða mikið af feitum fisk því hann er fullur af hágæða próteinum og inniheldur mikið magn af ómega 3 fitusýrum. Þá kemur Lifandi Markaður sterkur inn því þangað kemur nýr ferskur fiskur á hverjum morgni og misjafnt eftir dögum hvað er í boði svo sem lax, steinbítur, rauðspretta, lúða, langa, þorskur, karfi og fleira hollt og gott.

Breytist mataræðið þegar þú ert kominn með bardaga?

Mataræðið mitt breytist að vissu leyti en það fer líka eftir því hversu mikið ég þarf að létta mig eða hvort ég þurfi þess yfir höfuð. Ef ég þarf ekkert að létta mig breytist mataræðið lítið. Ef ég er að létta mig þá minnka ég kolvetnin og þegar nær dregur keppni minnka ég saltið í matnum. Annars sleppi ég hveiti, mjólkurvörum, hvítum sykri og forðast sætuefni þegar ég er kominn með bardaga. Svo borða ég reglulega og aldrei þannig að ég sé að springa.

Hvar finnst þér best að borða þegar þú borðar ekki heima hjá þér?

Lifandi Markaður klikkar aldrei og þar er líka gott að vera og gaman. Ég og dóttir mín elskum Gömlu Smiðjuna og förum alltaf þangað í pizzu og fáum bestu þjónustuna. Bestu borgararnir eru á Vegamótum og þá erum við að tala um Delux borgarann með úrvals nautakjöti. Svo er það auðvitað Nando’s alla daga ef við förum til Írlands, Englands eða Skotlands í keppnisferðir. Ef ég opna veitingastað þá verður það Nando’s!

nutella pizza sunna

Uppáhalds rétturinn hennar Sunnu er Nutella pizza.

Er þetta réttur sem þú myndir borða ef þú værir að undirbúa þig fyrir bardaga?

Ef ég þyrfti ekkert að létta mig og væri búin að vera rosalega dugleg á æfingum þá já.

Er auðvelt að gera þennan rétt?

Já það er mjög auðvelt og líka mjög gaman. Við kaupum Nutella, jarðaber og banana og förum á Gömlu Smiðjuna. Bakarasnáðarnir þar taka alltaf vel á móti okkur og græja fyrir okkur eldbakað pizzabrauð sem við svo smyrjum með Nutella og skerum ávextina, röðum á og njótum. Krökkunum finnst það mjög gaman. Það er ekkert mál líka að gera deig heima og setja í ofninn en okkur finnst það best eldbakað á Gömlu. Við mæðgur elskum báðar Nutella og pizzu og er því fullkomið að gera Nutellapizzu. Allt með Nutella er í miklu uppáhaldi hjá mér.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular