spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagararnir í mars 2020

10 áhugaverðustu MMA bardagararnir í mars 2020

Árið hefur farið frábærlega af stað í MMA heiminum. Stóru bardagarnir halda áfram í mars með endurkomu Israel Adesanya en hann var bardagamaður ársins 2019 að mati MMA Frétta.

10. UFC Fight Night 170, 14. mars – Johnny Walker gegn Nikita Krylov (léttþungavigt)

Johnny Walker hljóp á vegg þegar hann mætti Corey Anderson í nóvember. Hér mætir hann manni sem hann ætti klárlega að vinna en spurningin er hvort að tapið hafi dregið eitthvað úr honum. Ef ekki ætti þetta að vera sýning frá Walker.

Spá: Walker þrammar yfir Krylov, KO í fystu lotu.

9. UFC on ESPN 8, 28. mars – Aspen Ladd gegn Julianna Peña (bantamvigt kvenna)

Hér er ákveðin stöðubarátta í bantamvigt kvenna. Báðar þessar konur hafa sýnt frábær tilþrif en hafa líka þurft að þola erfið töp. Þetta gæti orðið mjög jafn bardagi þar sem stærra hjartað ræður úrslitum.

Spá: Peña sigrar á stigum.

8. Bellator 241, 13. mars – Patrício Freire gegn Pedro Carvalho (fjaðurvigt)

Patrício ‘Pitbull’ heldur áfram titilvörnum í Bellator en þetta verður önnur vörnin. Carvalho er 24 ára strákur frá Portúgal sem hefur unnið fjóra bardaga í röð í Bellator og æfir hjá SBG í Dublin. Carvalho kom meðal annars til Íslands í febrúar í fyrra og æfði í Mjölni í tvær vikur. Hvort hann eigi eitthvað erindi í meistarann verður að koma í ljós.

Spá: Freire sigrar, TKO í annarri lotu.

7. UFC on ESPN 8, 28. mars – Raphael Assunção gegn Cody Garbrandt (bantamvigt)

Það er auðvelt að finna til með Cody Garbrandt. Strákurinn var ósigraður meistari, sigraði Dominick Cruz sannfærandi og virtist ætla að sigra heiminn. Þremur slæmum rothöggum síðar er Garbrandt að skríða aftur í búrið í leit fornri frægð. Er hann búinn eða er þetta fyrsta skrefið að upprisu? Assunção er mjög erfiður andstæðingur en hann er ekki rotari og hann hefur sjálfur tapað tveimur í röð. Hvor nælir sér í fyrsta sigur í langan tíma?

Spá: Þetta gæti farið á báða vegu en ég tek Garbrandt á stigum.

6. UFC Fight Night 170, 14. mars – Demian Maia gegn Gilbert Burns (veltivigt)

Þetta er hrikalega áhugaverður bardagi. Fyrir utan það að hér mætast tveir menn sem unnu Gunnar Nelson eru þeir báðir yfirburða glímumenn. Vonandi fáum við glímuslag en líklega er Burns með yfirburði standandi og mun reyna að halda bardaganum þar.

Spá: Burns sigrar á stigum.

5. UFC Fight Night 170, 14. mars – Kevin Lee gegn Charles Oliveira (léttvigt)

Hefur einhver tekið eftir því að Charles Oliveira er búinn að vinna sex bardaga í röð og engan á stigum? Hann er samt bara númer 13 á styrkleikalista UFC á meðan t.d. Donald Cerrone er númer 5 með þrjú töp í röð. Oliveira er þó að uppskera, þessi bardagi er aðalbardagi kvöldsins sem þýðir fimm lotur. Kevin Lee endurvakti ferilinn sinn í hans síðasta bardaga gegn Gregor Gillespie svo nú er spurning hvort hann geti fylgt því eftir.

Spá: Oliveira kyrkir Lee í fyrstu lotu.

4. UFC on ESPN 8, 28. mars – Francis Ngannou gegn Jairzinho Rozenstruik (þungavigt)

Jairzinho Rozenstruik var nýliði ársins í fyrra. Hann rotaði fjóra risa frá febrúar til desember og er núna kominn í djúpu laugina. Francis Ngannou fór í gegnum erfitt tímabil árið 2018 en var geggjaður í fyrra með tvö rothögg gegn Cain Velasquez og Junior dos Santos. Þessi bardagi er ansi svakalegur og sigurvegarinn er líklegur í titilbardaga mjög fljótlega.

Spá: Held ég verði að taka Ngannou, rothögg í fyrstu lotu.

3. UFC 248, 7. mars – Zhang Weili gegn Joanna Jędrzejczyk (strávigt kvenna)

Strávigt kvenna er endalaus uppspretta skemmtilegra bardaga. Zhang Weili hefur bara barist fjórum sinnum í UFC en hún er komin með beltið og nú er bara að sjá hvort hún geti haldið því gegn fyrrverandi meistara. Joanna Jędrzejczyk var á toppnum árið 2017 en hefur tapað þremur af síðustu fimm. Þessi bardagi er gullið tækifæri fyrir hana til að endurheimta hásætið.

Spá: Zhang er of sterk, hún rotar Joanna í annarri lotu.

2. UFC Fight Night 171, 21. mars – Tyron Woodley gegn Leon Edwards (veltivigt)

Þetta er bardaginn sem varð að eiga sér stað í veltivigt. Kamaru Usman virðist ætla að berjast við Jorge Masvidal og Leon Edwards á skilið topp andstæðing. Woodley vildi helst fara strax aftur í Usman en þetta er miklu sanngjarnari leið. Fyrir Edwards er þetta stóra tækifærið sem hann var að bíða eftir, tækifærið sem mun tryggja honum titilbardaga með sigri. Á sama tíma er þetta mikil áhætta fyrir Woodley sem gæti hrapað niður listann með tveimur töpum í röð.

Spá: Mjög tæpt en ég ætla að taka séns á Edwards á heimavelli, sigur á stigum.

1. UFC 248, 7. mars – Israel Adesanya gegn Yoel Romero (millivigt)

Á meðan Paulo Costa jafnar sig af meiðslum er tilvalið að henda Yoel Romero í titilbardaga. Romero hefur tapað nýlega fyrir Costa og Robert Whittaker en það voru mjög jafnir bardagar sem margir telja að Romero hafi unnið. Adesanya var bardagamaður ársins í fyrra en nú er spurning hvort hann geti fylgt því eftir og varið beltið? Þetta verður nautið og nautabaninn og ætti að verða frábær viðureign.

Spá: Adesanya kemst í gegnum nokkur erfið augnablik, útboxar Romero og vinnur sannfærandi á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular