Thursday, April 18, 2024
HomeErlentAl Iaquinta ósáttur við UFC og berst ekki í New York

Al Iaquinta ósáttur við UFC og berst ekki í New York

Al Iaquinta mun ekki mæta Thiago Alves á UFC 205 í New York. Iaquinta á í deilum við UFC um samninginn sinn og hefur því bakkað úr draumabardaga sínum.

Samningsdeilurnar eiga sér langan aðdraganda og má segja að helsta deiluatriðið sé Reebok samningurinn. Iaquinta er New York maður í húð og hár og hefði fengið að upplifa gamlan draum með því að berjast við Thiago Alves í Madison Square Garden á UFC 205.

Iaquinta hafði samþykkt bardagann munnlega en ekki skrifað undir samninginn. Samkvæmt samningnum hefði hann fengið 26.000 dollara fyrir að mæta og svo aðra 26.000 fyrir að vinna. Auk þess hefði hann fengið 5.000 dollara frá Reebok.

Þetta hefði verið fyrsti bardagi Iaquinta í UFC síðan í apríl 2015 en Iaquinta hefur glímt við erfið meiðsli. Sá bardagi fór fram áður en Reebok samningurinn tók gildi en þá máttu bardagamenn klæðast hvaða fatnaði sem er og borið vörumerki ýmissa styrktaraðila. Í dag er landslagið þegar kemur að styrktaraðilum allt annað og hefur Iaquinta misst nánast alla sína styrktaraðila. Tekjur hans eru talsvert minni í dag og gat hann því ekki skrifað undir samninginn um að berjast við Thiago Alves fyrir svo lága upphæð. Þetta kemur fram í afar áhugaverðu viðtali Iaquinta við Fox Sports.

Kaupið fyrir bardagann gegn Alves er miðað við núgildandi samninginn hans við UFC sem hann skrifaði sjálfviljugur undir. Iaquinta hefur verið lengi frá og þurft að taka út af sparireikningnum til að halda sér á floti og fannst hann því verðskulda að fá betur borgað – sérstaklega í ljósi þess að Reebok samningurinn var ekki í gildi þegar Iaquinta skrifaði undir samninginn.

Iaquinta hefði heldur ekki haft möguleika á því að fá frammistöðubónusa í næstu þremur bardögum eftir að hafa brotið af sér þrisvar að mati UFC. Fyrsta brotið átti sér stað árið 2014 er hann skemmdi hótelherbergi eftir að hafa skemmt sér of vel eftir bardaga við Joe Lauzon. Hann framdi svo næsta brot þegar hann blótaði í beinni útsendingu á Fox Sports og það þriðja átti sér stað í fyrrasumar.

Iaquinta neitaði þá að mæta á sérstaka samkomu fyrir bardagamenn í Las Vegas á vegum UFC. Samkoman fór fram fimm vikum fyrir bardaga hans við Bobby Green. „Ég hefði þurft að sleppa einkatímunum sem ég kenni en þannig næ ég að afla mér smá tekna. Ég hefði þurft að fara til Las Vegas, fá ekkert sérstakar æfingar, æfa án þjálfaranna minna og án þess að fá greitt,“ sagði Iaquinta við Fox Sports vefinn.

Iaquinta sagðist auk þess vera veikur og þurfti hann því ekki að mæta. Iaquinta fékk hins vegar símtal frá UFC eftir að hafa birt mynd af sér á Instagram á ströndinni nálægt heimili sínu. Iaquinta var spurður hvers vegna hann gæti verið á ströndinni en ekki á samkomunni í Las Vegas. Þetta var þriðja brotið og var Iaquinta refsað af UFC. Refsingin er ekki léttvæg en Iaquinta getur ekki fengið frammistöðubónus í næstu þremur bardögum sínum, sama hversu vel hann berst. Frammistöðubónusarnir hljóða upp á 50.000 dollara.

UFC var einnig tregt við að borga fyrir hnéaðgerð hans eftir meiðsli sem hann varð fyrir í The Ultimate Fighter. Þessi hnémeiðsli hafa plagað hann lengi og hefur Iaquinta þurft að fara í tvær aðgerðir vegna meiðslanna. Iaquinta óskaði eftir betri samningi sem UFC hafnaði.

Í samtali við The MMA Hour í gær sagði Iaquinta að lítið standi eftir myndi hann vinna Thiago Alves eftir að hafa greitt skatta og kostnað sem fylgir æfingabúðum. Tapi hann bardaganum (og fái þar af leiðandi bara 26.000 dollara) kemur hann nánast út á núlli. Skortur á styrktaraðilum setur hlutina í annað samhengi eftir að Reebok samningurinn tók gildi.

Iaquinta er því ekki viss um að það borgi sig fyrir hann að berjast áfram í MMA. Hann getur aflað tekna á meðan hann er ekki að undirbúa sig fyrir bardaga þar sem hann kennir einkatíma og svo starfar hann í fasteignabransanum. Hann setur aukastörfin til hliðar þegar hann fer að undirbúa sig fyrir bardaga og telur að miðað við launin hans sé þetta einfaldlega ekki þess virði.

Iaquinta er í 13. sæti á styrkleikalista UFC í léttvigtinni og hefur unnið fjóra bardaga í röð í UFC. UFC var ekki lengi að finna staðgengil fyrir Al Iaquinta og mun New Jersey maðurinn Jim Miller mæta Thiago Alves í New York.

Viðtalið við Iaquinta í The MMA Hour var afar áhugavert en hægt er að hlusta á það hér að neðan.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular