spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAlan Procter: Ætla að klára Bjarka Thor

Alan Procter: Ætla að klára Bjarka Thor

Alan Procter. Mynd: Mark Blundell.

Alan Procter mætir Bjarka Thor Pálssyni annað kvöld á FightStar 9 bardagakvöldinu í London. Við ræddum við hann á dögunum um bardagann á morgun og skítkastið á samfélagsmiðlum.

Bardaginn á morgun verður endurat en fyrri bardagi þeirra Bjarka og Procter endaði með umdeildum hætti. Í 3. lotu fékk Bjarki ólöglegt hnéspark í sig og rotaðist hann fyrir vikið. Procter var í kjölfarið dæmdur úr leik og fór Bjarki með sigur af hólmi.

Svona vildi Bjarki Thor ekki vinna og því var ákveðið að þeir skyldu mætast aftur. Það mun gerast á laugardaginn en bardaginn fer fram í veltivigt.

Síðast þegar þeir mættust kom Bjarki inn með tveggja vikna fresti. Búið var að lofa Procter bardaga á FightStar 8 bardagakvöldinu í desember en hann var án andstæðings þar til Bjarki kom inn. Það hefur hjálpað Procter við æfingarnar fyrir þennan bardaga að vera með andstæðing allan undirbúninginn.

„Æfingarnar hafa gengið vel. Það hefur verið mun auðveldara að æfa vel í þetta sinn þar sem ég er með andlit fyrir framan mig. Síðast var ég ekki með andstæðing þar til tveimur vikum fyrir bardagann þannig að ég var ekki að æfa af eins miklum krafti. Í þetta sinn hefur verið meiri ákafi á æfingunum,“ segir Procter.

Procter ætlaði að taka bardaga í mars en ákvað að sleppa þeim bardaga til að einbeita sér að enduratinu gegn Bjarka.

Procter æfir hjá NFM og Carlson Gracie Farnborough og er hann mjög sáttur með æfingarnar fyrir bardagann. „Dean Amasinger er yfirþjálfarinn hjá NFM og hann er frábær þjálfari. Hann hefur unnið með mörgum UFC bardagamönnum og ég er með marga frábæra æfingafélaga hjá NFM.“

Einhverjir kannast kannski við Dean Amasinger úr The Ultimate Fighter en hann var í 9. seríu TUF þar sem breskir bardagamenn mættu bandarískum bardagamönnum. Amasinger er í dag virtur þjálfari í Bretlandi og sést oft í horninu hjá breskum bardagamönnum í UFC.

Í fyrri bardaga Bjarka og Procter náði Bjarki nokkrum fellum og tókst honum að stjórna Procter í gólfinu í 1. og 2. lotu. Æfingarnar fyrir þennan bardaga hafa verið með styrkleika Bjarka í huga. „Ég hef verið að vinna í að standa upp ef ég lendi undir en það er nokkuð sem ég átti í vandræðum með síðast. Á sama tíma býst ég við að Bjarki hafi bætt sig standandi þar sem ég var að hafa betur þar síðast. Ég býst við að hann komi vel undirbúinn til leiks.“

Eftir fyrri bardaga þeirra vöktu ummæli Procter á Instagram athygli þar sem hann sagðist hafa unnið bardagann. Fyrir vikið fékk hann nokkuð af neikvæðum ummælum á myndina.

Sjá einnig – Alan Procter: Án hnésparksins hefði ég klárað bardagann hvort sem er

Fyrir þennan bardaga hefur Procter verið að pósta myndum á vegg Bjarka Thors á Facebook. Hann hefur til að mynda sagst ætla að bjóða sig fram til forseta Íslands og póstaði þessu í gær.

„Eftir að íslensku bardagaaðdáendurnir fóru að áreita mig á samfélagsmiðlum fékk ég þessa hugmynd af myndunum. Ég hélt að það yrði gaman að vekja andúð og fá Íslendingana upp á móti mér til að kynna bardagann. Það var mjög gaman og mér fannst þetta mjög fyndið.“

Myndirnar hefur vinur hans gert í Photoshop eftir hugmyndum Procter en hann hefur haft nokkuð gaman af þessu.

„Ef ég á að segja eins og er hef ég aldrei verið í svona skítkasti [e. trash talk]. Ég hef tekið því opnum örmum í þetta sinn og hlegið að þessu. Ég tek engu of alvarlega og meina ekkert illt með þessu. Þetta er allt bara grín ef ég á að segja eins og er.“

Procter veit að Bjarki er góður bardagamaður og býst við erfiðum bardaga. Hann er viss um að hann muni standa uppi sem sigurvegari í þetta sinn.

„Ég ætla ekki að blekkja sjálfan mig. Allt getur gerst og Bjarki er góður bardagamaður. En ég trúi því að þegar ég er upp á mitt besta vinni ég Bjarka. Síðast stóð ég mig ekki eins vel og ég og skammaðist mín fyrir frammistöðuna mína. Núna mun ég halda ró minni og vonandi sýna heiminum hvers ég er megnugur og klára bardagann.“

Bardaginn fer fram annað kvöld en hægt verður að horfa á bardagann í gegnum streymi hér gegn vægu gjaldi.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular