Albert Tumenov, næsti andstæðingur Gunnars Nelson, gifti sig á dögunum. Óhætt er að segja að brúðarhefð hans sé talsvert öðruvísi en við eigum að þekkja.
Þeir Gunnar Nelson og Albert Tumenov mætast á UFC bardagakvöldinu í Rotterdam þann 8. maí. Hinn 24 ára Tumenov gifti sig fyrir fimm vikum síðan ef marka má Instagram mynd sem birtist á dögunum. Eins og sjá má á myndinni er Tumenov ekkert að flækja þetta og skella í nýja hárgreiðslu eða raka sig – bara sama gamla góða útlitið eins og þegar hann mætir í búrið.
Tumenov kemur frá Rússlandi eða nánar tiltekið í Kabardinu-Balkar lýðveldinu en þar ríkir ansi sérstök brúðarhefð. „Ein af áhugaverðustu brúðarhefðum okkar er svo kallað ‘brúðarrán’. Ekkert að óttast samt, þetta er allt annar hlutur í dag en í gamla daga,“ sagði Tumenov við Bloody Elbow fyrr á árinu.
„Ef þú berð tilfinningar gagnvart stelpu og hún tilfinningar til þín getur þú ‘rænt’ henni samkvæmt fyrirfram ákveðnu samkomulagi. Skömmu eftir ránið koma ættingar hennar í húsið þitt. Þeir spyrja hvort hún, brúðurin, væri til í að dvelja í húsinu þínu. Ef svarið hennar er já er brúðkaupið ákveðið. Hún dvelur samt ekki ein í húsi brúðgumans, vanalega eru systur eða vinkonur hennar með. Ef svarið hennar er ‘nei’ fer hún bara aftur heim, þú getur ekki haldið einhverjum án þeirra vilja, það væri ólöglegt! Í dag á þessi siður ekkert sameiginlegt með upprunalegu brúðarránunum sem áttu sér stað hér áður fyrr. Í dag er þetta falleg hefð þar sem allir þátttakendur vita sitt hlutverk.“
Aðspurður um hvaða eiginleika konan þarf að hafa segir Tumenov: „Hún þarf að vera hugulsöm, styðja mig í einu og öllu og eiga í góðu sambandi við foreldra mína.“