UFC staðfesti fyrir skömmu að Alexander Gustafsson og Anthony Johnson muni mætast þann 24. janúar næstkomandi. Bardaginn fer fram í 30.000 manna höll í Svíþjóð og mun sigurvegarinn fá næsta titilbardaga í léttþungavigtinni.
Svíinn Alexander Gustafsson er sá sem hefur komist næst því að sigra léttþungavigtarmeistarann Jon Jones en þeir mættust í september 2013. Gustafsson átti að fá annað tækifæri gegn Jones í september á þessu ári en meiddist á hné og því tók Daniel Cormier hans stað. Jones meiddist svo sjálfur á hné og var bardaga Cormier og Jones frestað fram til 3. janúar.
Anthony Johnson hefur komið inn eins og stormsveipur í léttþungavigtina og sigraði óvænt Phil Davis í endurkomubardaga sínum í UFC. Hann rotaði svo Rogerio ‘Lil Nog’ Nogueira í júlí og er í 3. sæti á styrkleikalista UFC í léttþungavigtinni. Hann var nýlega settur í tímabundið bann af UFC eftir að hann var ákærður fyrir heimilsofbeldi. Johnson var í síðustu viku sýknaður af öllum ákærum og því gat UFC loksins staðfest þennan gríðarlega spennandi bardaga.
Bardaginn fer fram í Tele2 Arena í Stokkhólmi og tekur leikvangurinn 30.000 manns í sæti. Þetta er aðeins í annað sinn sem UFC heldur viðburð á stórum leikvangi en UFC 129 fór fram á stórum leikvangi í Kanada þar sem 55.000 manns sáu Georges St. Pierre sigra Jake Shields.