0

Anderson Silva fær eins árs bann – má snúa aftur í nóvember

anderson silvaAnderson Silva hefur verið dæmdur í eins árs keppnisbann eftir fall á lyfjaprófi. Anderson féll á lyfjaprófi í október 2017 og mun banninu ljúka í nóvember á þessu ári.

Anderson Silva átti að keppa við Kelvin Gastelum í nóvember á síðasta ári í Kína. Nokkrum vikum fyrir bardagann féll hann hins vegar á lyfjaprófi og gat ekki keppt. Í hans stað kom fyrrum millivigtarmeistarinn Michael Bisping.

Málið hefur tekið langan tíma en nú hefur USADA (sem sér um öll lyfjamál UFC) komist að þeirri niðurstöðu að efnin sem fundust í lyfjaprófinu hafi komið úr fæðubótarefnum Anderson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá USADA.

Menguðu fæðubótarefnin komu frá apóteki sem framleiðir sérstaklega efni fyrir viðskiptavini sína. Apótekið útbjó sérstaklega fæðubótarefnin sem innihéldu ólöglega efnið en efnin voru ekki á innihaldslýsingu fæðubótarefnisins. USADA rannsakaði efnin og staðfesti að ólöglegu efnin hefðu komið úr fæðubótarefnunum sem Anderson notaði.

Efnin sem fundust í lyfjaprófinu voru anabólískur steri (methyltestosterone metabolites) og hýdróklórtíazíð. Hýdróklórtíazíð er bannað þar sem það er þvaglosandi efni sem er oft notað til að fela steranotkun.

Eins árs bann Anderson nær frá 10. nóvember 2017 og getur hann því barist aftur eftir 10. nóvember 2018. Hinn 43 ára Anderson Silva ætlar að halda áfram að berjast.

Anderson er einn af fjórum brasilískum bardagamönnum sem fallið hafa á lyfjaprófi undanfarið en verið hreinsaðir af sök þar sem sannað var að ólöglegu efnin komu úr fæðubótarefnum. Junior dos Santos, Antonio ‘Lil Nog’ Nogueira og Marcos Rogerio de Lima fengu allir 6 mánað bann en Anderson fær eins árs bann þar sem þetta er hans annað brot. Allir fengu þeir fæðubótarefnin frá apótekum sem sérhannar fæðubótarefni fyrir þá.

Silva féll á lyfjaprófi eftir bardaga sinn gegn Nick Diaz árið 2015 þar sem anabólískir sterar fundust í lyfjaprófinu en Silva hélt því fram að efnið hefði komið úr tælenskum risdrykk sem á að bæta frammistöðuna í bólinu.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.