0

Darren Till boðið að berjast við Tyron Woodley – Colby Covington sagður vera meiddur

Darren Till

Darren Till heldur því fram að honum hafi verið boðið að berjast við Tyron Woodley um veltivigtarbeltið. Till segir að bráðabirgðarmeistarinn Colby Covington sé meiddur og því sé hann næstur í röðinni.

Colby Covington varð bráðabirgðarmeistari í veltivigtinni með sigri á Rafael dos Anjos í júní. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti hann að fá næsta titilbardaga en nýjustu fréttir herma að Darren Till fái næsta titilbardaga.

Till telur að Covington sé meiddur og þess vegna hafi UFC haft samband við sig varðandi titilbardaga. Covington var nýlega í Submission Radio þættinum þar sem hann sagðist þurfa smá hlé en yrði tilbúinn að berjast við Woodley í nóvember eða desember.

Till bað Woodley vinsamlegast um að samþykkja bardagann en er sjálfur ekki viss hvort hann fái titilbardagann á endanum.

„Ég veit ekki hvað er að gerast með Colby, hvort hann sé meiddur eða ekki, en mér hefur verið boðið að berjast við Woodley og hann neitaði,“ sagði Till við MMA Fighting.

„UFC vill að ég berjist við hann en hann neitar að samþykkja. Það var engin dagsetning nefnd en það er bardaginn sem UFC vill bóka núna. Ég spái ekki mikið í þessu en ég held að honum finnist enginn þess verðugur að berjast við sig. Ég held hann vilji bara halda í beltið eins lengi og hann getur en hann þarf að taka ákvörðun fljótlega. Ef hann vill ekki berjast við mig, við hvern vill hann þá berjast? Það er bara ég og Colby og Colby er meiddur núna. Þetta er skrítið en við munum sjá hvað gerist.“

Á sama tíma kannast Woodley ekkert við að hafa verið boðið að berjast við Till.

Tyron Woodley hefur ekki barist síðan hann sigraði Demian Maia í júlí 2017. Woodley fór í aðgerð á öxl í janúar en hefur áður sagt að hann verði tilbúinn í ágúst.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.