spot_img
Sunday, October 6, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAnna Soffía: "Framtíðin er björt hjá stelpum í bardagaíþróttum"

Anna Soffía: “Framtíðin er björt hjá stelpum í bardagaíþróttum”

annasoff
Anna Soffía fyrir miðju.

Anna Soffía Víkingsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari í Júdó og varð tvöfaldur Íslandsmeistari um nýliðna helgi á Íslandsmeistaramótinu í BJJ.

Sæl Anna Soffía. Geturu byrjað á því að kynna þig fyrir lesendum MMA frétta?

Ég er 28 ára fædd og uppalin í Ólafsvík. Ég stunda mastersnám í Félagsfræði við Háskóla Íslands og einnig hef ég verið að vinna fyrir Jón Gunnar Bernburg prófessor að rannsókn sem hann er að gera um búsáhaldabyltinguna.

Hvernig og hvenær byrjaðiru að æfa BJJ?

Ég hef verið í júdó frá unglingsaldri og verið að æfa og keppa með landsliðinu en svo árið 2011 byrjaði ég aðeins að finna mig í BJJ. Ég sleit svo krossband sumarið 2012 og við tók löng pása. Ég byrjaði svo aftur á fullu núna í vor í Mjölni.

Geturu sagt mér frá æfingum þínum í Mjölni?

Mjölnir er magnaður staður, virkilega gott andrúmsloft, flottir þjálfarar og frábærir æfingafélagar. Einnig verð ég að segja að uppbyggingin hjá þeim varðandi stelpurnar er virkilega frábær og sjaldséð um allan heim að svona margar stelpur séu að æfa á eina og sama staðnum. Aðrar íþróttir mættu taka þá sér til fyrirmyndar. Það hefur myndast virkilega góður kjarni hjá stelpunum sem ég sé fram á að eigi eftir byggjast enn meira upp. Framtíðin er björt hjá stelpum í bardagaíþróttum.

Hversu oft æfiru í viku og hvað fer mikill tími í annars vegar “drills” og hins vegar “free rolling”?

Í augnablikinu er svolítið misjafnt hvað ég æfi oft í viku, en ég reyni að fara 5-6 sinnum (ekki allt BJJ æfingar). En ef ég væri að setja stefnu á eitthvað mót þá myndi ég reyna að æfa oftar. Þegar ég var á fullu í Júdó var ég að æfa 8-10 sinnum í viku.Það fer vanalega helmingurinn af tímanum í “drills” og helmingur í “free rolling”, fer svoldið eftir þjálfurunum enda fer maður eftir því sem þeir setja fyrir. Það er mjög mikilvægt að “drilla” til þess að læra að þekkja hreyfingarnar sem maður vill gera í glímunum svo þær komi af sjálfu sér.

Hvað ættu BJJ iðkendur að einblína á í standandi glímu ?

Handtökin, þau eru gríðarlega mikilvæg. Læra að stjórna andstæðingnum þínum með hreyfingu og tökunum þínum. Svo bara að tileinka sér 2-3 brögð sem hægt er að flétta saman.

Nú sigraðir þú +64 kg þyngdarflokkinn og opna þyngdarflokk kvenna á Íslandsmeistaramóti BJJ, æfðir þú stíft eða öðruvísi fyrir mótið ?

Eins mikið og ég gat miðað við álagið í skólanum. En ég reyndi að vera skynsöm og ná góðum glímum á æfingum og hugsa um góða leikáætlun fyrir mótið. Eftir að hafa verið að keppa mikið í gegnum tíðina þá þróar maður með sér ákveðna rútínu fyrir mót, sérstaklega seinustu vikuna fyrir mót sem einkennist af góðu mataræði og góðu andlegu jafnvægi. Stuttu fyrir mót þá reyni ég að vera duglegri að hrósa sjálfri mér þó það sé bara eitthvað sem ég geri ómeðvitað.

Mynd: Örn Arnar Jónsson
Mynd: Örn Arnar Jónsson

Geturu sagt mér frá frammistöðu þinni á Íslandsmeistaramótinu ?

Ég var nokkuð sátt með mína frammistöðu. Ég glímdi þrjár glímur í mínum þyngdarflokki, fyrstu glímuna vann ég á “Kimura”, önnur glíman endaði á “armbar” og úrslitaglímuna, sem var við Dóru Haraldsdóttur, vann ég á stigum. Ég hugsa að það hafi verið erfiðasta glíma mótsins fyrir mig, hún var svo öflug að passa hendurnar sínar og ramma á mig.

Í opna flokknum keppti ég 2 glímur, fyrri endaði á “armbar” og svo var úrslitaglíman við Ingu Birnu. Það var mjög skemmtileg glíma sem mig minnir að ég hafi klárað á “Kimura”. Þetta var virkilega skemmtilegt mót og gaman að sjá allar þessar öflugu stelpur frá öllum félögunum.

Hver eru framtíðarplön þín í BJJ ?

Framtíðarplönin mín eru óráðin, ég mun alltaf keppa en spurning hversu mikið. Ég væri til í að leggja bardagaíþróttir meira fyrir mig og halda áfram að fara út fyrir þægindarammann, mér finnst ég þroskast mest þar. En þá er þetta smá val á milli skólans og bardagalistarinnar, það er víst ekki hægt að gera allt í einu.

spot_img
spot_img
Brynjar Hafsteinsson
Brynjar Hafsteinsson
-Greinarhöfundur -Félagsfræðinemi HÍ -MMA-spekingur frá 1999 -Sparkboxari
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular