0

Árið gert upp: Helgi Rafn Guðmundsson (Sleipnir)

helgi rafnÁrið 2014 var skemmtilegt ár í bardagaíþróttum bæði hér heima og erlendis. Við fengum aðila frá helstu bardagaklúbbum á Íslandi til að gera upp árið 2014. Í dag gerir Helgi Rafn Guðmundsson, yfirþjálfari Sleipnis, upp árið.

Hvað fannst þér standa upp úr á árinu í MMA á heimsvísu?

Það var mikið af frábærum hlutum að gerast í MMA. Mér fannst áhugavert að sjá Reebok fatasamninginn og ég er fróður að sjá hvernig rætist úr honum. Það var mjög mikið um að vera fyrir „nýja“ menn í UFC þar sem margir gamlir meistarar voru fjarri góðu gamni. Sumir menn virtust ósigrandi í mörg ár eins og t.d. GSP, Anderson Silva og BJ Penn en þeir eru allir annað hvort farnir frá sportinu eða í engum titilhugmyndum og mikið rót er á meisturum í UFC. T.d. má þar nefna TJ Dillashaw sem var að mínu mati maður ársins í UFC, en hann tók titilinn af Renan Barao í bantamvigtinni og greyið Dominick Cruz er í eilífu meiðslastandi.

Í fjaðurvigtinni er mikið um að vera t.d. allt sem viðkemur Conor McGregor og topp 4-5 listanum í þeim flokki. Það verður spennandi að sjá hvernig sá flokkur fer á árinu og hvort einhver nái að stöðva Jose Aldo sem er búinn að vera meistarinn í þessum flokki um ár og aldir.

Í léttvigtinni er Anthony Pettis maðurinn þessa daganna en erfitt að meta raunverulega hversu lengi hann verður þarna, bara búinn að verja titilinn einu sinni á móti Gilbert Melendez og virðist einnig vera gjarn á að vera lengi frá vegna meiðsla.

Johny Hendricks og Robbie Lawler áttu góðar rimmur á árinu og nú eru Lawler meistari í veltivigtinni. Ég held að þessi flokkur muni skipta um meistara ört næstu árin.

Crish Weidman gæti verið maðurinn til að halda millivigtarbeltinu í langan tíma þótt hann sé nýkominn með það og verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir á móti Vitor Belfort í febrúar ef sá bardagi verður einhvern tímann.

Jon Jones er meistarinn í léttþungavigtinni og von á rosalegum bardaga nú á laugardag þegar hann keppir við ofurglímumanninn Daniel Cormier. Sá bardagi er búinn að vera í járnunum í langan tíma.

Í þungavigtinni vann Fabricio Verdum svo interim meistarabeltið og á að keppa við Cain Velazques einhvern tímann í náinni framtíð.

Hvað fannst þér standa upp úr á árinu í bardagaíþróttum á Íslandi?

Frábært gengi keppnishópsins í Mjölni og auðvitað allir bardagar Gunnars Nelson í UFC. Bardagi Gunna á móti Omari Akhmedov var frábær og svo fannst mér Magnús Ingi Ingvarsson eiga hrikalega flotta bardaga að öðrum ólöstuðum.

Taekwondo-ið er að koma sterkt inn á Íslandi en íþróttamenn Reykjanesbæjar, Árborgar og Sandgerðis eru allir úr taekwondo. Íslenska liðið sigraði bæði Norðurlandamótið og Opna Skoska mótið í taekwondo. Meisam Rafiei fékk A-styrk frá ÍSÍ til að reyna að komast á Ólympíuleikana í Ríó. Liðið okkar í Keflavík var feykisterkt og sigraði alla innlenda titla með nokkrum yfirburðum og Ástrós Brynjarsdóttir var valin íþróttamaður Reykjanesbæjar annað árið í röð sem er mikill heiður.

Hvernig var árið hjá ykkur?

Árið okkar í Sleipni var yndislegt. Við áttum margar góðar glímur á mótunum og nokkra titla. Ég hlakka til að hefja þetta ár af krafti.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.