spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÁsgrímur Hermannsson: "Kom smá fiðringur í mig þegar ég labbaði í hringinn"

Ásgrímur Hermannsson: “Kom smá fiðringur í mig þegar ég labbaði í hringinn”

Ási
Mynd: Tiger Muay Thai

Ásgrímur Hermannsson er 22 ára Íslendingur sem hefur dvalið í Tælandi undanfarna tvo mánuði í Tiger Muay Thai. Þar hefur hann æft Muay Thai og tók sinn fyrsta bardaga nýlega en hann á nú einn mánuð eftir af þriggja mánaða dvöl sinni. MMA Fréttir spjallaði við hann um dvölina, æfingarnar og bardagann sem hann tók nýlega.

Hvenær byrjaðiru að æfa Muay Thai/sparkbox?

Ég byrjaði í Box 101 hjá Mjölni í maí í fyrra og strax og það var búið fór ég í Kickbox 101 í júlí.

Hvers vegna fórstu að æfa bardagaíþróttir?

Ég hafði æft Goju Ryu karate hjá Fylki þegar ég var barn og fannst það frábært. Ég fór síðan að einbeita mér meira að handbolta og skildi karate-ið eftir. Eftir að hafa hætt í handboltanum fann ég ekki neina líkamsrækt sem mér fannst spennandi. Ég fiktaði aðeins í CrossFit en fannst það ekki nóg. Ég fór þá að hugsa um dagana í karate og ákvað að finna mér bardagaíþrótt til að æfa. Eftir að hafa skoðað mig aðeins um á netinu sá ég að Mjölnir var augljóst val.

Hvenær ákvaðstu að þetta er það sem þú vildir gera, þ.e. að fara til Tælands að æfa?

Þegar ég byrjaði í Mjölni (apríl 2013) þá var Sunna Rannveig úr keppnisliðinu að koma heim frá Tælandi og ég hafði ákveðið að taka mér pásu frá skóla í ár. Ég var í Box 101 þegar Sunna kemur heim og ég fer að skoða hvar hún var úti og gat ekki hætt að hugsa um hvað mig langaði að gera þetta. Mig minnir að ég hafi skráð mig í Kickbox 101 á sama tíma og ég bókaði mér flug til Tælands í þrjá mánuði að æfa Muay Thai, sem er ákveðin bilun. Sunna mælti með staðnum og Tiger Muay Thai er sá klúbbur sem býður upp á fjölbreyttasta úrvalið af æfingum. Þeir eru með yoga, MMA, Muay Thai, Muay Boran, BJJ o.s.fr.

Hvernig er venjulegur dagur uppbyggður hjá þér þarna úti?

Þegar ég er að æfa þá vakna ég yfirleitt í kringum 7 og fer síðan á morgunæfingu klukkan 8. Eftir það er morgunmatur/hádegismatur. Yfir daginn þá leggur maður sig oftast og síðan fer maður yfirleitt á eftirmiðdagsæfingu eða kvöldæfingu. Svo borðar kvöldmat og fer að sofa. Dagarnir renna svolítið saman í eitt hér því að þeir eru allir eins, borða, æfa, sofa og endurtaka.

Hvernig eru æfingarnar þarna? Var erfitt að venjast álaginu og hitanum?Ási2

Æfingarnar fara fram úti í 28-35 stiga hita. Það var ótrúlega erfitt að venjast æfingum í þessum hita. Hitinn er samt ekki verstur heldur er það rakinn. Hver æfing eru tveir klukkutímar svo að ímyndaðu þér tveggja tíma kickbox æfingu inni í Hot Yoga sal, þá ertu kominn frekar nálægt stemningunni.

Hvernig er getustigið á æfingafélögum þínum þarna úti?

Það er mjög mismunandi. Það eru þrjú svæði hérna fyrir Muay Thai æfingarnar, Beginners, Intermediate og Advanced. Ég æfði aðallega á Intermediate og síðan er ég með minn eigin þjálfara sem ég fer í einkatíma til.

Finnst þér vera mikill munur á hvernig æft er þarna úti miðað við hér heima? Hvar liggur munurinn helst?

Hér skamma þjálfaranir þig ef þú notar sparkbox tækni t.d. ef maður beygir hnéð í sparki. Hér vilja þeir ekki sjá neitt annað en Muay Thai á æfingum, maður verður að sparka með beinni löpp og sveifla hendinni með. Síðan eru æfingarnar hér formfastari og eru allar æfingarnar eins fyrir utan tæknina sem er farið í. Upphitun, skuggabox, tækni, 3 lotur af padsavinnu með þjálfara, 3 lotur af vinnu á púða, sparr/clinch vinna, magaæfingar og armbeygjur í lokin og svo teygjur. Einn helsti munurinn er samt að það eru miklu fleiri þjálfarar á iðkendur, maður er nánast með sinn eigin þjálfara á hóp æfingum.

Segðu okkur aðeins frá bardaganum?

Ég hafði bara viku til að undirbúa mig fyrir bardagann þar sem vikuna þar áður gat ég ekki æft út af sýkingu sem ég fékk í fótinn. Ég var því ekki í besta formi sem ég gæti verið í. Reglurnar voru þannig að þetta var áhugamanna Muay Thai en þar er keppt með legghlífum og 16 únsu hönskum, allir olnbogar eru bannaðir og hnéspörk í höfuð eru bönnuð. Ég hef ekki séð bardagann allan en frá því sem ég hef heyrt þá átti ég fyrstu lotuna, var duglegur að grípa spörkin hans og sópa löppinni undan honum. Önnur lota var frekar jöfn fyrir utan að hann skar mig undir auganu með hnésparki í höfuðið (sem var þó bannað í reglunum en dómarinn sá ekkert athugavert við það). Fyrir miðri lotu fann ég að eitthvað gaf sig í hendinni eftir að hafa lent þungum hægri krók/overhand en ég komst síðan að því að ég hafði brotið á mér hendina. Í þriðju lotu var bensíntankurinn alveg búinn og voru það lengstu þrjár mínútur sem ég hef upplifað. Ég tapaði svo á dómaraúskurðinum. Þetta var fyrsta viðureign mín í bardagaíþrótt og þó að það sé aldrei gaman að tapa gat ég verið sáttur með bardagann.

Varstu stressaður fyrir bardagann?

Merkilega lítið, ég reyndi að hugsa sem allra minnst um bardagann sjálfann og einbeita mér að undirbúningnum. En það kom smá fiðringur í mig þegar ég labbaði inn í hringinn.

Stefniru á að taka fleiri bardaga á meðan þú dvelur þarna?

Ég stefndi að öðrum bardaga en ég get lítið gert þar sem ég verð fastur í gifsi næstu þrjár vikurnar.

Ertu að æfa BJJ/Wrestling líka á meðan þú ert þarna úti eða ertu bara í Muay Thai?

Ég hef kíkt á nokkrar BJJ æfingar hérna en ég einbeiti mér mest að Muay Thai.

Að hverju stefniru að í bardagaíþróttum í framtíðinni?

Ég stefni á næsta inntökupróf fyrir keppnislið Mjölnis en markmiðin eru ekkert háleit. Stefni allavega á að taka áhugamanna MMA bardaga á næstu árum og svo sjáum við hvað setur.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular