Bjarni Darri Sigfússon, 14 ára, er Íslandsmeistari í þremur bardagagreinum, brasilísku jiu-jitsu, íslenskri glímu og tækwondo. Einnig hefur hann náð góðum árangri í júdó þar sem hann var í öðru sæti á Íslandsmeistarmótinu 2013. MMA fréttir tóku viðtal við þennan efnilega bardagamann:
Hvað ertu búinn að stunda bardagaíþróttir lengi?
Er búinn að æfa júdo (Njarðvík) í 3 ár, jiu-jitsu í 2 ár og íslenska glímu í 1 ár. Er með græna beltið í Júdó og gula í jiu jitsu.
Hvernig er að æfa svona margar bardagaíþróttir?
Það er fjör að æfa! Það heldur manni uppteknum og í formi.
Segðu okkur aðeins frá því hvernig er að æfa íslenska glímu?
Í íslenskri gímu er ekki sér galli en það er best að vera í eins þröngum fötum og hægt er því ef þú ert felldur getur þú bjargað þér með því að halda þér uppi á annari hendi og hælunum og ef þú og/eða fötin þín snerta gólfið þá taparðu. Glímuæfingar fara vanalega fram þannig að við hitum upp, æfum köst, varnir og fallæfingar og svo eru oftast smá þrek- og styrktaræfingar í lokin.
Finnst þér ekkert vont að glíma á beru íþróttagólfi án dýna í íslenskri glímu?
Jú, það er mjög óþægilegt að lenda á engum dýnum en við gerum mikið að fallæfingum svo við erum vanir því.
Nýtist íslenska glíman þér í BJJ eða öðrum bardagaíþróttum sem þú stundar?
Glíma og júdó eru ekki svo ólíkar þegar kemur að standandi glímunni, bara ólík tök, en annars hjálpar BJJ þér ekki mikið í íslenskri glímu og öfugt.
Áttu þér draum sem tengjast bardagaíþróttum?
Draumur minn í bardagaíþróttum er að keppa í Júdó á Ólympíuleikunum og komast í UFC.
Hvað myndir þú ráðleggja einhverjum sem er að hugsa um að byrja að æfa bardagaíþróttir?
Ef þú ert að hugsa um að byrja að æfa bardagaíþrótt þá mæli ég með því að leggja sig alltaf 100% fram á æfingum og biðja um aðstoð ef það er eitthvað sem þú ekki skilur.
Hver eru uppáhalds brögðin þín?
Uppáhaldsbraðgið mitt í júdo er ura-nage (suplex). Það er frekar öruggt bragð ef maður vill vinna. Í jiu-jitsu er það armbar sem er líka örugg og góð leið til að vinna en oft erfitt að ná því bragði. Í glímu nota ég oftast Sasae tsuri-komi-ashi kastið sem ég lærði í Júdó. Uppáhaldsbragðið mitt í tækwondo er Nareban því það er flókið og virkilega flott spark.
Viltu segja eitthvað að lokum?
Ég hefði ekki komist hingað ef ég ætti ekki svona æðislega foreldra og þjálfara sem gera allt til að hjálpa manni að verða betri!
MMA fréttir þakka Bjarna Darra fyrir viðtalið og óskar honum alls hins besta í framtíðinni
flott viðtal við kappa
Flottur!
Skemmtilegt viðtal við efnilegan íþróttamann. Svakalega sem ég er ánægður með MMAfréttir.is og nálgun ykkar á íþróttinni. Fullt af flottum viðtölum sem þið vinnið en ekki bara einhverjar þýðingar á erlendum fréttum, sem auðvitað eru góðar og nauðsylegar í bland.