Kolbeinn Kristinsson átti að keppa á föstudaginn í Detroit en hætt hefur verið við viðburðinn.
Kolbeinn Kristinsson (12-0) átti að keppa sinn 13. atvinnubardaga í boxi nú á föstudaginn. Kolbeinn átti að mæta Rodney Moore (20-18-2) í þungavigt á boxkvöldi í Detroit en líkt og víðsvegar í heiminum hefur verið hætt við alla bardagana vegna kórónaveirunnar.
Ferill Kolbeins er kominn á gott flug eftir að hann fékk samning við Salita Promotions. Kolbeinn barðist síðast í janúar þegar hann sigraði Dell Long með rothöggi í 2. lotu. Kolbeinn vill berjast sem mest á þessu ári en hann hefur dvalið í Bandaríkjunum í um það bil mánuð til að undirbúa sig fyrir bardagann sem átti að vera á föstudaginn. Kolbeinn býst við að koma sér heim til Íslands á næstu dögum.