spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBirgir Örn: Gæti ekki verið ánægðari

Birgir Örn: Gæti ekki verið ánægðari

Birgir Örn Tómasson vann sinn fyrsta atvinnubardaga í gær á Shinobi bardagakvöldinu í Liverpool. Við heyrðum í Birgi í dag á meðan liðið var á heimleið.

Birgir mætti Anthony O’Connor í léttvigt í gær og vann eftir tæknilegt rothögg í 1. lotu. Anthony O’Connor er öflugur andstæðingur og var Birgir hrikalega ánægður með sigurinn og hefði þetta varla getað farið betur.

Birgir var að fá nokkur högg í sig í byrjun en var þó ekki vankaður. „Hann var ekki að meiða mig en hann hefði gert það ef hann hefði fengið að halda áfram að hitta í mig. Ég fann fyrir seinustu höggunum hans rétt áður en ég rotaði hann. Það var kraftur í þessu klárlega, ég fann vel fyrir þeim þarna í lokin,“ segir Birgir.

Birgir kýldi O’Connor niður með hægri króki og fylgdi því eftir með höggum í gólfinu. „Það var ekki fyrr en ég sá hvernig hann brást við högginu, hvernig hann limpaðist niður, sem ég fattaði hvað var að gerast. Ég fann það ekki í höndinni strax að ég hefði smellhitt. Hann skellti höggi á mig á sama tíma en ég sá það reyndar bara eftir á. Hann var að hjóla inn í mig með sinni hægri og þannig náði ég honum.“

„Ég var að passa mig á honum enda vissi ég að hann væri mjög snöggur. Hann var að ná nokkrum spörkum í mig í byrjun en ég var farinn að blokka þau. Ég þurfti að passa mig þar sem hann var að sækja svo hratt og fara í svona hraðar árásir.“

Fyrir bardagann kvaðst Birgir ætla að notast við lagið Kick in the Door með Biggie Smalls sem inngöngulag. Það kom því Birgi á óvart þegar AC/DC hljómaði á meðan Birgir gekk í búrið. „Það var alveg glatað. Þetta lag er svona mitt lag og ég nota það til að stilla mig inn, bæði fyrir sjálfan mig og áhorfendur. Þetta sló mig pínulítið út af laginu þegar ég var að rölta þarna inn og var ekki alveg ángægður með þetta. En það þýðir ekkert að spá í svona en vissulega svekkjandi.“

Þegar sigurinn var í höfn fagnaði Birgir vel og innilega og segist hann ekki alveg vita hvað hann var að gera í fagnaðarlátunum. „Maður veit aldrei hvað maður gæti gert þegar maður er svona glaður. Þessi fagnaðarlæti voru aldrei fyrirfram ákveðin. Stundum verður það hálf kjánalegt þegar maður fagnar svona, hvort sem það er að öskra eða hoppa eitthvað, þetta er bara svo ósjálfrátt. Maður er bara svo glaður með að þetta hafi allt gengið upp, allt sem maður er búinn að vera að vinna að svo lengi.“

Þetta er svo sannarlega góð byrjun á atvinnumannaferlinum hjá Birgi og verður gaman að fylgjast með honum berjast næst. Að lokum vill Birgir fá að þakka nokkrum aðilum: „Vil endilega þakka öllum fyrir stuðninginn, alveg hreint ómetanlegt! Eins vil ég þakka styrktaraðilunum mínum; Ginger, Wink hár, Hreysti, Aðal Garðaþjónustan og Óðinsbúð.“

Birgir Örn Tómasson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular