Friday, June 14, 2024
spot_img
HomeForsíðaBirgir Örn Tómasson: Ég fer alltaf inn í bardaga með það í...

Birgir Örn Tómasson: Ég fer alltaf inn í bardaga með það í huga að klára með rothöggi

biggi smile
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Birgir Örn Tómasson keppti í aðalbardaga kvöldsins á Shinobi War 4 bardagakvöldinu um síðastliðna helgi. Birgir Örn háði mjög erfiða viðureign við talsvert reynslumeiri andstæðing, heimamanninn Gavin Hughes.

Birgir stóð sig vel, náði þungum höggum á andstæðing sinn, en það dugði ekki til. Hughes náði nokkrum góðum fellum og sigraði loks á dómaraúrskurði. Hvernig fannst Birgi undirbúningurinn fyrir bardagann ganga?

„Undirbúningurinn gekk mjög vel, mér fór mikið fram síðustu vikunum fyrir bardagann. Fékk rosalega mikla hjálp frá æfingafélögunum og þjálfurunum í Mjölni en ég var mikið að vinna í að bæta tæknina í standandi glímu, þá sérstaklega vörnina. Einnig vissi ég að þetta væri fimm lotu viðureign svo ég lagði áherslu á að þolið væri í lagi. Svo voru nokkur atriði í seinasta bardaga sem ég tók eftir að þyrfti að laga eða betrumbæta.“

Í áhugamannabardögum getur verið erfitt að afla sér upplýsinga um andstæðinginn þar sem algengt er að viðkomandi hafi ekki keppt mikið. Skoðaði Birgir mikið af efni um andstæðinginn fyrir bardagann?

„Ég hafði séð fjóra seinustu bardaga hans, (hann var með fimm sigra og ekkert tap) og ég kíkti yfir þá fyrst þegar mér var boðið að berjast við hann. Það er gott að sjá aðeins hvernig andstæðingurinn virkar, hvort hann sé örvhentur, hvort hann sæki frekar í að standa og berjast eða hvort hann vilji frekar glíma í gólfinu o.s.f.v. Þar fyrir utan er maður ekkert að skoða neitt meira. Ég sá t.d. strax að þetta yrði rosalega erfiður andstæðingur, grjótharður, nautsterkur og snöggur. Hann var alveg mjög svipaður og ég bjóst við, það eina sem kom mér á óvart var hvað hann gat tekið þung högg. Ég náði alveg þó nokkrum ‘rothöggum’ á hann sem dugðu ekki til. Ég vissi svo sem að hann væri harður, en ekki svona harður.“

biggi boom
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Það er að sjálfsögðu auðvelt að vera vitur eftirá en hefði Birgir gert eitthvað öðruvísi í búrinu eða undirbúningnum ef hann fengi tækifæri til?

„Það væri fátt sem ég myndi breyta. Það eina sem ég hefði viljað gera betur er að fylgja eftir þeim árásum sem voru að hitta inn, þar hefði maður helst náð að klára málin með rothöggi. Svo er það annað, ég þarf kannski að fara að skoða aðeins málin með að skora stig. Ég fer alltaf inn í bardaga með það í huga að klára með rothöggi, pæli ekkert í einhverjum stigum. Enda hef ég unnið alla mína bardaga með rothöggi, í MMA, hnefaleikum og Muay Thai. Einu skiptin sem dómarar hafa fengið að dæma þá hef ég tapað. Þetta er í annað skiptið sem það gerist en ég tapaði Muay Thai bardaga í Englandi árið 2011 á dómaraúrskurði.“

Gunnar Nelson, sem var í horninu hjá Birgi, hafði orð á því eftir bardagann að hann hefði aldrei séð eins góðan aðbúnað fyrir áhugamannabardaga og úti í Liverpool þar sem bardagakvöldið fór fram. Tekur Birgir undir það?

„Þetta er í annað skiptið sem ég berst hjá þeim í Shinobi Wars, seinast vorum við í Wales. Þessir menn sem standa fyrir þessu eru algjörir snillingar, virkilega almennilegir. Það er komið fram við okkur eins og kónga, gistum í fjögurra stjörnu hóteli, vorum sóttir og skutlað eftir þörfum og öllu reddað fyrir mann. Rosalega vel að öllu staðið og mjög fagmannlegt. Bardagakvöldið sjálft var ekki síðra, svakalega flott að öllu leyti.“

Birgir fékk nokkra nýja styrktaraðila fyrir bardagann en er erfitt að verða sér úti um styrktaraðila hér á landi?

„Ég er ennþá á fullu að vinna í að finna fleiri styrktaraðila, ef það eru einhverjir áhugasamir þarna úti þá mega þeir endilega hafa samband við mig. Það er mjög erfitt að standa undir öllum kostnaði sjálfur, nær ómögulegt. Það er náttúrulega erfitt að fá fyrirtæki til að styrkja einhvern algjörlega óþekktan íþróttamann en nú verð ég alltaf örlítið þekktari eftir hvern bardaga og fyrir vikið er líklegra að einhverjir sjái hag í að fara í samstarf við mig.“

Aðspurður um hvað sé næst á döfinni segist Birgir alltaf vera klár í slaginn. Hann hafi í hyggju að keppa fljótlega aftur og verði í Mjölni við æfingar fram að þeim tíma. Bardagi Birgis kemur á netið síðar í vikunni og verður hægt að sjá hann á Facebook síðu Birgis. Bardaginn var valinn besti bardagi kvöldsins svo við hvetjum alla til að setja Like á síðuna hans og fylgjast með.

Að lokum vill Birgir þakka öllum styrktaraðilum sínum: Scanco ehf., Orkudrykkurinn Burn, Gló, Hreysti, Wink hársnyrtistofa, Plastiðjan, Avista.is, Óðinsbúð og Vegamót. Við þökkum Birgi fyrir viðtalið og óskum honum alls hins besta í framtíðinni.

biggi kall
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

 

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular