Tilkynnt var í gær að Michael Bisping muni fá titilbardaga gegn Luke Rockhold. Bisping er þó enn við tökur á kvikmyndinni xXx og getur ekki enn einbeitt sér að fullu að æfingum.
Michael Bisping er með hlutverk í myndinni xXx: The Return of Xander Cage. Bisping er staddur í Kanda um þessar mundir þar sem tökur fara fram en þeim lýkur um helgina.
Bisping hefur ekki mikinn tíma í undirbúningi fyrir bardagann enda fer bardaginn fram á UFC 199 þann 4. júní. Chris Weidman átti upphaflega að mæta Rockhold en Weidman meiddist fyrir skömmu og gat ekki barist. Bisping kemur því inn með skömmum fyrirvara.
Tökunum á myndinni er nánast lokið. „Ég var ekki í neinum tökum í dag [miðvikudag] svo ég gat tekið æfingu með Jorge Blanco sem er mjög virtur þjálfari og vinnur meðal annast með GSP og Rashad Evans. Ég þarf að mæta í tökur á morgun [fimmtudag] svo ég get tekið æfingu um morguninn. Föstudag er ég laus allan daginn og get æft aftur en þarf að mæta í tökur um kvöldið. Laugardagsmorgun flýg ég heim og hef tvær vikur til að æfa eins brjálæðingur,“ sagði Bisping í þætti Luke Thomas.
Vikan fyrir bardagann (Fight week) er yfirleitt smekkfull af fjölmiðlaskyldum og gefst ekki eins mikill tími fyrir æfingar. Bisping getur því í raun aðeins tekið eina góða viku fyrir þennan stærsta bardaga ferilsins.
Það er heldur ekki eins og Bisping hafi verið að æfa á fullu undanfarna mánuði. Hann hefur verið í tökum á fyrrnefndri kvikmynd og veit að hann getur ekki reiknað með að geta farið allar fimm loturnar eins og áður. Planið hans er því að reyna að klára þetta snemma.
„Ég er ekki að fara að berjast fimm lotur. Ef ég reyni það tapa ég. Ég hef ekki þolið í það núna. Trúðu mér, ég hef margoft stoppað gæja í fyrstu lotu þó það hafi reyndar verið fyrr á ferlinum. Ég mun fara aftur í villimannsstílinn minn. Ég mun gefa allt í þetta.“
Niðurskurðurinn verður líka erfiður fyrir Bisping en í viðtalinu sagðist hann vera rúm 94 kg. Bisping þarf að vera 84 kg daginn fyrir bardagann til að titilbardaginn geti farið fram og þarf því að skera 10 kg af sér á rúmum tveimur vikum. Bisping segir niðurskurðinn vera gerlegan en erfiðan.
Hann hefur þó verið að undirbúa sig fyrir titilbardagann allan sinn feril og hefur fulla trú á að hann geti sigrað Luke Rockhold. Bardaginn verður aðalbardaginn á UFC 199 þann 4. júní.