spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Þór: Sjúklega sáttur með þetta

Bjarki Þór: Sjúklega sáttur með þetta

Bjarki Þór Pálsson átti frábæra frammistöðu þegar hann sigraði Quamer Hussain í aðalbardaganum á FightStar bardagakvöldinu í London í gær. Bjarki Þór sigraði eftir dómaraákvörðun og tryggði sér þar með Evrópumeistaratitil FightStar.

Bjarki Þór er núna 4-0 á atvinnuferlinum eftir sigurinn í gær. Við heyrðum í honum í dag þar sem hann var staddur hjá Big Ben turninum í London. Eftir 15 mínútna bardagann í gær er Bjarki bara nokkuð góður á því.

„Ég er aðeins slæmur í öxlinni en annars bara helvíti heill. Það var eitthvað sem gerðist í bardaganum með öxlina en veit ekki alveg hvað það var,“ segir Bjarki.

Bjarki stjórnaði Hussain lengi vel í gólfinu en átti líka fína spretti standandi þar sem hann tók m.a. fljúgandi hnéspark. „Mér leið bara ótrúlega vel í búrinu. Var bara rólegur og yfirvegaður standandi og fann svona góða tilfinningu. Náði svona að vera aðeins frjálsari en ég hef verið áður fyrr. Það er búið að vera markmiðið, að vera meira frjáls, gera meira af klikkuðum hlutum, ekki bara að spila þetta öruggt. Aðeins að gera eitthvað skemmtilegt.“

Fimm Íslendingar börðust á kvöldinu og var uppskeran tveir sigrar en þrjú töp. Yngri bróðir Bjarka, Magnús Ingi Ingvarsson, tapaði sínum bardaga eftir rothögg í 1. lotu. Hvernig var fyrir Bjarka að fara í sinn bardaga vitandi af úrslitum bróður síns?

„Ég sá þetta ekki. Ég sá ekki bardagann fyrir minn bardaga. Strákarnir lugu að mér að þetta hefði verið bara stoppað of snemma, svo ég myndi ekki truflast. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Þeir útskýrðu ekkert nánar fyrir mér hvað gerðist. Ég fékk bara að sjá þetta eftir á og er þakklátur fyrir það. Ég ætlaði að vera í horninu hjá Magga en Hrólfur [Ólafsson, hornamaður] talaði mig af því. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir það því ég veit ekki hvernig ég hefði verið ef ég hefði séð þetta gerast fyrir minn bardaga. Ég horfði á þetta eftir á og ég fór næstum því að gráta. Þetta situr í mér.“

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Gerimundsson.

Bjarki tók Hussain nokkrum sinnum niður í bardaganum en Hussain var mjög duglegur af bakinu og beitti hann olnbogunum mikið. „Það var erfitt. Hann var svo djöfulli sleipur. Hann lét mig stöðugt vinna fyrir stöðum. Alltaf þegar mér fannst ég vera að komast í góða stöðu, þá var hann kominn eitthvert annað. Síðan lét hann höggin dynja á mér. Hann er brúnbeltingur og æfir hjá Roger Gracie Academy. Hann var mjög sprækur.“

„Síðan voru spörkin hans mikið fastari en ég bjóst við. Þegar ég horfði á myndbönd af honum fyrir bardagann hélt ég að þetta væri bara smá spörk og enginn kraftur í þeim. En það var meiri kraftur í þeim en ég hélt.“

Eftir bardagann ræddu þeir Bjarki og Hussain um bardagann og splæsti Hussain einni Coca-Cola á Bjarka. „Hann bíður yfirleitt andstæðingum sínum upp á drykk eftir bardagann, áfengi eða bjór, en þar sem ég drekk ekki keypti hann kók handa mér. Við spjölluðum bara aðeins um bardagann. Það var mjög næs.“

Bjarki Þór mun taka því rólega næstu daga áður en fer aftur á fulla ferð. Bjarki gæti keppt aftur fyrir FightStar en ætlar að sjá hvort einhver tilboð komi eftir þennan sigur. „Ég bara tek því sem kemur. Ef að það kemur ekkert úr þessu þá mun ég klárlega taka 9. desember í FightStar. Ég þarf aðeins að slaka á núna en er bara tilbúinn að taka 9. desember ef ekkert annað kemur. Mun halda áfram núna og bæta mig og setja allt í botn. Eins og ég er búinn að vera að gera, halda þessu áfram. Markmið mitt var að verða 5-0 í lok árs og ég þarf einn sigur viðbót til að ná því.“

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Gerimundsson.

Bjarki mun eyða deginum í London áður en hann heldur heim á leið í fyrramálið. „Lífið er bara djöfulli gott núna! Það er alltaf hægt að laga eitthvað en ég er mjög ánægður með þessa frammistöðu. Ég kýldi hann niður í 1. lotu en það er í fyrsta sinn sem ég næ því. Er búinn að vinna mikið með Villa [Hernandez, boxþjálfara] og farinn að finna mikinn kraft í hægri og komið meira öryggi í hana.“

„Ég var f***king stressaður fyrir þennan bardaga en þannig eru yfirleitt bestu frammistöðurnar. Þetta var mjög hraður bardagi og er ég ánægður með þolið mitt í bardaganum. Var ekkert farinn að finna fyrir þreytu fyrr en það voru þrjár mínútur eftir af síðustu lotunni. Niðurskurðurinn hafði engin áhrif á mig. Ef ég held áfram að bæta þolið gæti ég haldið sama hraða út þrjár lotur og það er ekki slæmt. Ég er bara sjúklega sáttur með þetta,“ segir Bjarki Þór að lokum.

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Gerimundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular