spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarni Kristjánsson: Ég ætla bara að koma heim heimsmeistari

Bjarni Kristjánsson: Ég ætla bara að koma heim heimsmeistari

bjarni k

Bjarni Kristjánsson keppir á heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA í næstu viku. Bjarni ferðast einn síns liðs en stefnir að sjálfsögðu á heimsmeistaratitilinn.

Upphaflega ætlaði Bjarni ekki að fara einn. „Við ætluðum að fara allur keppnisliðs hópurinn en síðan hættu bara allir við. Ég var einhvern veginn búinn að ákveða að mig langaði að fara. „Ég spurði Halla [Harald Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis] hvort ég mætti fara einn og hann sagðist telja að svo væri ekki. Hann talaði síðan við mótshaldarana og fékk leyfi fyrir mig til að fara einn og ég ákvað að gera það bara,“ segir Bjarni.

Þó Bjarni ferðist einn verður hann ekki alveg einsamall í ferðinni og mun hafa einhvern í horninu sínu. „Ég verð með írska liðinu og John Kavanagh verður þarna með írska liðinu. Hann er auðvitað búinn að vera að þjálfa okkur.“

Það verður eflaust talsvert þægilegra að hafa Kavanagh í horninu og getur Bjarni hitað upp með írska liðinu. Írarnir munu koma að góðum notum nema Bjarni mæti auðvitað Íra. Þá verður hann einn á báti.

Vigtun fyrir keppnina fer fram á mánudegi og er dregið hverjir mæta hverjum á sama tíma. Keppni hefst svo á þriðjudegi og er vigtað inn á hverjum morgni.

Bjarni mun því komast að því samdægurs við hvern hann er að fara að berjast. Það er nokkuð sem heillar Bjarna. „Þetta verður reynsla. Að fara á móti einhverjum sem ég veit ekkert um og að þurfa að reikna hann út sjálfur án þess að hafa séð hann áður og vita ekki neitt heillar mig. Ég ætla að fara þarna inn og gera mitt, enda ofan á.“

Bjarni er fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu og hefur margoft unnið til verðlauna á glímumótum hér á landi. Reynslan á glímumótum mun koma sér vel á mótinu þó MMA sé talsvert frábrugðið glímumótum. „Fyrir mér er þetta eins og á glímumóti. Þú mætir og þarft bara að reikna andstæðinginn út á staðnum. Markmiðið er alltaf að vinna og ég ætla bara að koma heim heimsmeistari. Það verður alltaf markmiðið.“

Bjarni er búinn með einn MMA bardaga sem hann tók í maí 2013. Líkt og svo oft áður hjá bardagafólkinu okkar hætti andstæðingurinn við daginn fyrir bardagann. „Mér var boðið að taka bardaga við pro gæja sem missti bardagann nokkrum dögum áður. Ég sagði bara já og hann var til í það.“

„Þetta var öðruvísi en ég bjóst við. Gæjinn sem ég mætti var heimahetja og það var baulað á mig á leið í búrið sem hafði þau áhrif á mig að ég sprengdi mig við að reyna að vinna. Adrenalínið fór í botn þegar allir byrjuðu að baula á mig og lætin byrjuðu.“

„Ég lærði þarna að maður þarf að stýra orkunni og stjórna því sjálfur. Ekki láta utanaðkomandi áhrif stjórna því hvað þú ert að gera við orkuna og kraftinn. Það var svona mín upplifun af bardaganum. Ég misreiknaði aðeins aðstæðurnar og hvað það getur haft mikil áhrif á mann í rauninni. Þetta er allt öðruvísi en að vera í búrinu á æfingu og enginn að horfa.“

Síðan þá eru þrjú ár liðin og hefur margt breyst síðan þá. Bjarni sleit krossband fyrir tæpum tveimur árum síðan en þess á milli hefur hann verið að æfa allan tímann.

„Í fyrsta lagi er ég í miklu betra formi, líkamlega og andlega. Ég er miklu meira tilbúinn í að keppa og veit í hvað ég er að fara út í. Hugurinn er á réttum stað og getulega er ég auðvitað miklu betri í að boxa og í raun í öllu. En hef bætt mig mest í glímunni og boxinu.“

Bjarni er 28 ára gamall, „bara“ búinn með einn bardaga og veltum við því fyrir okkur hvert hann stefnir í íþróttinni? „Pælingin mín var alltaf að taka einn pro bardaga, bara til að hafa gert það. Ég ætla samt bara að byrja á þessu móti og vinna það og vonandi fara pro. Mig langar það. En það verður bara að ráðast eftir því hvernig gengur. Væri gaman að verða pro en það var alltaf draumurinn.“

Bjarni er með B.S. í verkfræði og vinnur sem slíkur. Hvernig fer vinnan með MMA og hvað finnst vinnuveitendum hans um þetta?

„Ég er bara að gera þetta í frítíma mínum en þeim finnst ég ruglaður að fara út að láta berja mig eins og þeir segja. Þetta virkar þokkalega saman. Síðasta mánuðinn hefur þetta bitnað svolítið á vinnunni að vera að æfa tvisvar á dag en þeir eru þolinmóðir yfirmenn mínir eins og er,“ segir Bjarni og hlær.

„Ég vinn fyrir hádegi, tek æfingu í hádeginu og fer aftur í vinnuna. Svo tek ég aðra æfingu um kvöldið og er þá í tvo til þrjá tíma að æfa. Maður er kannski að æfa fjóra tíma á dag en yfirleitt er þetta á frekar rólegum hraða nema sparr æfingarnar á þriðjudögum.“

Mynd af Bjarna með þeim Gunnari Nelson, Saul Rogers og fleirum á Instagram aðgangi Gunnars vakti athygli meðal æfingafélaga og vina Bjarna enda voru mörg neikvæð ummæli um Bjarna frá aðdáendum Gunnars. Bjarni var kallaður t.d. „slob“ og fleira í þeim dúr sem Bjarna fannst dálítið fyndið. Óhætt er að segja að þessir sömu menn geti ekki kallað Bjarna „slob“ lengur enda hefur hann lést um nokkur kíló á skömmum tíma.

„Það tók mig tvær vikur að taka sjö kíló af mér bara með því að borða hollt. Ég var ekki einu sinni í megrun, hætti bara að borða brauð og svo kom six packinn allt í einu. Vinnufélagar mínir héldu að ég væri á sterum en ég borðaði bara clean og æfði nógu andskoti mikið. Það gerir mjög mikið.“

Bjarni er nú í kringum 91 kg en hann keppir í léttþungavigt á mótinu eða í 93. kg flokki. Eins og er þarf Bjarni ekki að hafa miklar áhyggjur af vigtuninni sem fer fram á hverjum keppnisdegi.

Eins og áður segir mun Bjarni keppa á þriðjudaginn og verður gaman að fylgjast með framgöngu hans á þessu stóra móti í Las Vegas. Við óskum Bjarna góðs gengis og munum flytja ykkur frekari fréttir af bardögum hans.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular