Björn Þorleifur Þorleifsson keppir sinn fyrsta MMA bardaga á morgun. Björn er með margra ára keppnisreynslu úr Taekwondó og mætir heimamanni í Prag á morgun.
Evrópumótið í MMA hófst í dag en á morgun munu fimm Íslendingar keppa. Björn mætir Premysl Kucerka frá Tékklandi á morgun og er tiltölulega rólegur yfir þessu öllu saman.
„Ég er ekkert að stressa mig á þessu, ég ætla bara að fara og gera mitt besta, sjá hvernig þetta fer. Ég er ekkert að stressa mig endilega á útkomunni og set þetta bara í reynslubankann, hvernig sem fer,“ segir Björn.
Björn byrjaði bara að æfa MMA um áramótin en býr að mikilli reynslu úr Taekwondo. „Ég mun klárlega reyna að nýta mér spörkin eitthvað og ef það tekst er ég í góðum málum. Það þarf bara eitt gott spark í hausinn, þá er þetta búið.“