Fyrsta boxmót ársins fór fram í dag hjá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur þar sem fimm bardagar voru á dagskrá.
Mótið fór fram í húsnæði Mjölnis í Öskjuhlíðinni. Í fyrsta bardaga dagsins mættust þeir Mikael Hrafn og Ísak Guðnason í unglingaflokki (junior). Báðir sýndu lipra takta enda efnilegir hnefaleikamenn en svo fór að Mikael Hrafn sigraði eftir dómaraákvörðun.
Í 2. bardaga dagsins mættust þeir Aron Franz og Ingimundur Árnason. Báðir voru að keppa sína fyrstu box bardaga og var bardaginn þrælskemmtilegur. Aron endaði á að vinna eftir dómaraákvörðun í jöfnum og spennandi bardaga.
Þeir Jón Marteinn og Mikhail Mikhailov áttu flottan bardaga þar sem Jón sigraði eftir dómaraákvörðun. Jón Marteinn var í lok mótsins valinn boxari mótsins af dómurum eftir flotta frammistöðu.
Kristín Sif og Hildur Ósk áttust við í næstsíðasta bardaga dagsins. Bardaginn var jafn en Kristín sigraði að lokum eftir klofna dómaraákvörðun.
Í síðasta bardaga dagsins mættust þeir Elmar Gauti og Arnis Kopstals. Arnis lenti góðum höggum snemma og var nokkrum skrefum framar en Elmar í dag. Arnis sigraði eftir dómaraákvörðun í skemmtilegum bardaga.
-69 kg
Mikael Hrafn (HR) sigraði Ísak Guðnason (HFK) eftir dómaraákvörðun.
-75 kg
Aron Franz (HR) sigraði Ingimund Árnason (HFR) eftir dómaraákvörðun.
-69 kg
Jón Marteinn (Æsir) sigraði Mikhail Mikhailov (Æsir/Bogatyr) eftir dómaraákvörðun.
-75 kg
Kristín Sif (HR) sigraði Hildi Ósk (HFR) eftir klofna dómaraákvörðun.
-91 kg
Arnis Kopstals (Æsir/Bogatyr) sigraði Elmar Gauta (HR) eftir dómaraákvörðun.
Síðustu tvo bardaga mótsins má sjá hér að neðan.