UFC on Fox 21 fer fram í Vancouver í Kanada á laugardaginn. Eftir allt fárið í kringum UFC 202 hefur farið fremur lítið fyrir bardagakvöldinu.
Fox sjónvarpsstöðin sýnir yfirleitt nokkur UFC kvöld á ári. Vanalega eru þetta ágætlega stór bardagakvöld með skemmtilegum bardagakvöldum en það er óhætt að segja að kvöldið á laugardaginn sé ekki það besta sem sést hefur á Fox sjónvarpsstöðinni.
Aðalbardagi kvöldsins er þó frábær og verður gaman að sjá Anthony Pettis í næstsíðasta bardaga kvöldsins en annars er ekki mikið um að vera á laugardaginn miðað við þessi Fox kvöld sem við höfum áður fengið. Aðalbardaginn er hins vegar mjög áhugaverður þar sem þeir Carlos Condit og Demian Maia mætast.
Demian Maia er í hinni endalausu leit að titilbardaga í veltivigtinni. Hinn 38 ára Maia hefur unnið fimm bardaga í röð og er enn að bíða eftir titilbardaganum. Líklegast fær Stephen Thompson næsta titilbardaga en sigri Maia á laugardaginn ætti hann að vera næstur í röðinni á eftir Thompson. Það er hins vegar ekkert öruggt í þessum bransa og aldrei að vita nema Woodley og Thompson mætist tvisvar í röð verði fyrri bardagi þeirra stórkostleg skemmtun eða endi með umdeildum hætti.
Tíminn gæti verið knappur fyrir Maia en það besta sem hann gæti gert væri að klára Carlos Condit með tilþrifum á laugardaginn. Við vitum öll að hann er ekki að fara að reyna að rota Condit en Maia mun 100% reyna að klára Condit með uppgjafartaki.
Carlos Condit er á undarlegum stað á ferlinum. Condit tapaði fyrir þáverandi meistara, Robbie Lawler, í janúar í frábærum bardaga. Að margra mati átti Condit skilið að vinna en Condit íhugaði að hætta eftir bardagann. Eftir smá umhugsun kaus hann að halda áfram. Þó hann sé bara 32 ára hefur hann verið lengi að og spurning hvort hausinn sé rétt skrúfaður á þessa dagana nú þegar hann íhugar að hætta.
Condit er bara með tvo sigra í síðustu sex bardögum en er samt í raun bara einum sigri frá titilbardaga. Hann er gríðarlega vinsæll bardagamaður enda allir hans bardagar afar skemmtilegir. Þess ber þó að geta að töpin fjögur hafa öll komið gegn topp andstæðingum á borð við Georges St. Pierre, Johny Hendricks, Tyron Woodley og Robbie Lawler.
Bardaginn gegn Maia er afar áhugaverður tæknilega séð, ekta „grappler vs. striker“ bardagi. Maia mun reyna allt sem hann getur til að ná Condit niður og það er alls ekki ómögulegt verk enda Condit varist aðeins 40% fellna andstæðinga sinna. Condit hefur oft ekki verið með miklar áhyggjur af fellum andstæðinga sinna enda er hann hættulegur af bakinu og ógnar þaðan. Hann hefur samt ekkert að bjóða af bakinu gegn Demian Maia (með fullri virðingu fyrir Condit).
Maia á eflaust eftir að fara í fellu á fyrstu 30 sekúndum bardagans. Það er auðvitað ekkert leyndarmál hvað hann ætlar að gera. Það verður því áhugavert að sjá hvers konar leikáætlun Carlos Condit ætlar að koma með á laugardaginn. Hugsanlega mun hann vera mjög hreyfanlegur og passa að Maia nái honum alls ekki nálægt búrinu þar sem er auðveldara að ná fellu. Sú taktík gæti virkað en nokkuð ljóst að fyrsta mínúta bardagans á eftir að segja okkur mikið um framhald bardagans.
Takist Maia að ná Condit niður strax í bardaganum snaraukast sigurlíkur hans en haldi Condit sér standandi fyrstu lotuna mun bardaginn strax verða erfiðari fyrir Maia.
Bardaginn er aðalbardaginn á UFC on Fox 21 bardagakvöldinu á laugardaginn. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst á miðnætti á laugardaginn en fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 20:30.