Gamla goðsögnin Chuck Liddell ætlar að snúa aftur í MMA á þessu ári. Hinn 48 ára gamli Liddell býst við að mæta Tito Ortiz í þriðja sinn í haust.
Chuck ‘The Iceman’ Liddell er á leið aftur í búrið. Liddell mun mæta Ortiz í nýjum bardagasamtökum Oscar de la Hoya. „Ég mun berjast aftur. Þetta er að gerast í alvörunni og þeir eru að vinna í þessu,“ sagði Chuck Liddell í The MMA Hour á mánudaginn en stefnan er sett á að berjast í nóvember.
„Ég sakna þess að berjast, ég hef aldrei hætt að sakna þess. Ég hafði ekki hugsað mikið um endurkomu fyrr en menn fóru að tala um það og ég byrjaði að æfa aftur. Ef Tito hættir við þurfum við að hafa staðgengil svo undirbúningurinn verði ekki til einskis. Það verður einhver annar til staðar, sennilega einhver annar sem ég hef barist við áður.“
Dana White, forseti UFC, er einn af þeim sem hefur áhyggjur af ákvörðun Liddell. Ísmaðurinn lagði hanskana á hilluna árið 2010 eftir þrjú töp í röð eftir rothögg. Liddell fékk þægilegt starf hjá UFC þar sem hann var á launum allt árið en þurfti ekki að gera mikið nema ferðast á nokkra viðburði á ári. Þegar núverandi eigendur keyptu UFC var Liddell látinn fara.
„Með fullri virðingu fyrir honum [Dana White], láttu þetta í friði, láttu mig í friði. Þú lofaðir mér einhverju og nú er það farið. En það er ekki aðalmálið, mig langar að berjast. Ég sakna þess. Að berjast var það skemmtilegasta sem ég gerði og ég sakna þess. Ég sakna þess að skera niður, ég sakna öllu sem tengdist ferlinu, það góða og slæma. Ég sakna þess að hanga eftir æfingar og æfa á hverjum degi.“
Dana White er þó ekki sá eini sem hefur áhyggjur af heilsu Liddell en margir bardagaaðdáendur deila þeim áhyggjum. „Ég virði það og það pirrar mig ekki. Það eru fullt af fólki að segja mér að gera þetta ekki en ef ykkur líkar ekki við þetta þurfið þið ekki að horfa á þetta. Það er í góðu lagi. Horfið bara á gömlu bardagana í staðinn.“