0

Colby Covington hótar að fara í mál við UFC

Colby Covington er ekki beint sáttur með sína stöðu í UFC í dag. Covington var lofað titilbardaga en nú er Kamaru Usman á leið í búrið með meistaranum Tyron Woodley.

Colby Covington varð bráðabirgðarmeistari með sigri á Rafael dos Anjos í júní 2018. Hann gat hins vegar ekki barist í september þegar Woodley gat varið beltið sitt og var í kjölfarið sviptur bráðabirgðartitlinum. Covington neitaði síðan að berjast við Kamaru Usman með sex vikna fyrirvara á meðan Usman samþykkti og var Usman því kominn á undan Covington í röðinni um veltivigtarbeltið. Þegar Usman fékk svo titilbardagann var Covington síður en svo sáttur.

„Ef UFC vill vera sirkus og spillt fyrirtæki er það þeirra vandamál. Ég ætla að standa upp fyrir því sem ég trúi og ætla ekki að bakka,“ sagði Covington við MMA Junkie.

Að sögn Covington vill UFC að hann berjist annan bardaga sem er ekki um titilinn fyrir mun lægri upphæð. „Það er ekki að fara að gerast. Ég bíð frekar á hliðarlínunni. Við getum líka farið með þetta í dómstóla, ég get gert líf þeirra mjög erfitt. Mér er skítsama. Þeir eru nú þegar að reyna að gera lífið mitt erfitt. Þetta er fáránlegt.“

Ef Covington fær ekki titilbardaga vill hann fá samningi sínum við UFC rift svo hann geti barist annars staðar eða mögulega farið í fjölbragðaglímuna WWE. Enginn bardagamaður UFC hefur tekist að vinna mál gegn UFC þó nokkrir hafi reynt.  „Þeir vita hversu mikils virði ég er. Þeir vita að ég er mesta aðdráttaraflið í veltivigtinni og bráðum stærsta stjarna íþróttarinnar. Ég er að bæta mig á hverjum degi og er bara þrítugur.“

Kamaru Usman mætir Tyron Woodley um veltivigtartitilinn á UFC 235 þann 2. mars.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.