Conor McGregor fer strax í aðgerð í fyrramálið í Las Vegas. Conor fótbrotnaði í bardaganum gegn Dustin Poirier í nótt.
Conor McGregor fótbrotnaði í lok 1. lotu í bardaganum gegn Dustin Poirier í nótt. Dana White, forseti UFC, vill sjá þá mætast í fjórða sinn.
„Bardaginn kláraðist ekki. Það er ekki hægt að láta bardaga klárast svona. Við sjáum hvað setur. Við vitum ekki hve lengi Conor verður frá. Poirier mun gera sitt þar til Conor verður tilbúinn,“ sagði Dana White á blaðamannafundinum eftir bardagann.
Dustin Poirier mun væntanlega mæta léttvigtarmeistaranum Charles Oliveira næst. Óvíst er hvenær sá bardagi fer fram en líklegast á þessu ári.
Dana segir einnig óvíst hvenær Poirier og Conor gætu mæst í fjórða sinn. „Þetta snýst allt um tímasetningu, hvað er að gerast og hvað hefur gerst síðan þá. Conor fer í aðgerð á morgun. Við vitum ekki hve lengi hann verður frá. Vitum ekki hversu mikla endurhæfingu hann mun þurfa.“