Conor McGregor var í viðtali við Esquere á dögunum. Í viðtalinu lét hann hafa eftir sér að það tæki hann 30 sekúndur eða minna að sigra Floyd Mayweather í bardaga.
„Ég lít ekki á mann sem er snillingur á tilteknu sviði sem sérfræðing. Ég sé hann sem nýgræðing í tíu öðrum hlutum. Þú getur boxað, en hvað gerist ef ég gríp utan um fæturnar þínar? Ef ég myndi mæta Floyd Mayweather, besta boxara heims, myndi ég drepa hann á innan við 30 sekúndum. Það tæki mig minna en 30 sekúndur að hengja hann,“ segir McGregor.
Þarna á McGregor við ef Írinn myndi mæta boxaranum snjalla í MMA bardaga. Það myndi auðvitað vera allt annað uppi á teningnum ef um box bardaga væri að ræða.
Bæði Conor McGregor og Floyd Mayweather eiga risabardaga framundan. Conor McGregor mætir auðvitað Jose Aldo um fjaðurvigtarbeltið á UFC 189 í júlí og Floyd Mayweather mætir Manny Pacquiao þann 2. maí.
Það er auðvelt að hneykslast á þessum ummælum McGregor en þarna á hann einfaldlega við að hann kjósi að vera góður á öllum vígstöðum bardagans í stað þess að vera bara góður að boxa. Viðtalið er góð lesning en lesendur geta lesið viðtalið í heild sinni á vef Esquire hér.
Ég mæli sterklega með þessari grein, hún er virkilega góð.