spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentConor vann heimavinnuna fyrir blaðamannafundinn en Khabib var rólegur

Conor vann heimavinnuna fyrir blaðamannafundinn en Khabib var rólegur

Blaðamannafundur fyrir UFC 229 fór fram fyrr í kvöld þar sem þeir Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov voru viðstaddir. Conor var með sín venjulegu læti á meðan Khabib var nokkuð rólegur.

Að sjálfsögðu byrjaði blaðamannafundurinn alltof seint og var Conor seinn í hús. Blaðamannafundurinn var lokaður almenningi og voru aðeins blaðamenn viðstaddir. Conor byrjaði á að gagnrýna þá ákvörðun UFC að hafa enga aðdáendur á blaðamannafundinum. Dana White sagði þó að UFC hefði ekki viljað taka neina áhættu miðað við sögu þeirra beggja.

Conor McGregor mætti með nýja viskíið sitt sem hann gaf út á dögunum. Conor skellti flöskunni á borðið og hellti í þrjú glös; eitt fyrir sig, eitt fyrir Dana White og eitt fyrir Khabib Nurmagomedov. Khabib afþakkaði þó enda drekkur hann ekki á meðan Conor sturtaði sínu glasi í sig. Þeir Conor og Khabib berjast þann 6. október.

Conor var verulega æstur á blaðamannafundinum til að byrja með og kallaði Khabib rottu, glerkjálka, svikara og loddara. Khabib hefur nokkrum sinnum þurft að hætta við bardaga vegna meiðsla og einu sinni ekki mætt í vigtun. Conor varaði Khabib við að bakka ekki úr þessum bardaga.

Báðir voru að hrópa á hvorn annan og var oft erfitt að heyra hvað þeir voru að segja. Það er samt vitað mál að hvorugur var að segja eitthvað fallegt um hvorn annan. Khabib minntist á rútuárásina og spurði Conor hvers vegna Artem Lobov hefði ekki slegið Khabib til baka þegar Khabib löðrungaði Artem í aðdraganda UFC 223 á sínum tíma – atvikið sem var upphafið að rútuárásinni frægu.

Conor fékk hundrað milljónir dollara fyrir bardagann gegn Floyd Mayweather í fyrra. Conor sagðist ekki þurfa að berjast en geri þetta fyrir ánægjuna. Hann þarf ekki að berjast fyrir peninga en einfaldlega elskar að berjast.

Að lokum fóru umræðurnar að snúast um Tjetseníu og Dagestan, pabba Khabib, einræðisherrann í Tjetseníu Ramzan Kadyrov og Ziyavudin Magomedov án þess að nokkur hafði spurt um þau málefni. Conor hefur greinilega unnið heimavinnuna sína en Rússinn Magomedov var stuðningsaðili Khabib og færði honum dýrar gjafir. Hann situr nú í fangelsi fyrir að draga að sér 55 milljónir dollara í ríkisfé og sagði Conor að nú væri Khabib blankur þar sem stuðningsaðili hans er á bakvið lás og slá. Þarna var Khabib orðinn aðeins æstari þegar Conor var farinn að blanda fjölskyldunum í þetta.

Að lokum mættust þeir augliti til auglits í fyrsta sinn og fór allt friðsamlega fram þar. Áður en Conor yfirgaf sviðið hrópaði hann að umboðsmanni Khabib, Ali Abdelaziz, sem var farinn að blanda sér í málin. Abdelaziz á ansi skrautlega fortíð að baki og er umdeildur í bransanum. Conor hrópaði að Ali „Hvar er Noah, Hvar er Noah?“ en Noah er sonur umboðsmannsins Ali Abdelaziz sem hann yfirgaf.

Hér má sjá þegar þeir loksins stóðu andspænis hvor öðrum.

Blaðamannafundinn má sjá í heild sinni hér að neðan.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular