Mirko ‘Cro Cop’ Filipovic greindi frá því í vikunni að hann væri hættur. Í tilkynningu frá UFC í gær kom fram að króatíska goðsögnin hefði fallið á lyfjaprófi.
UFC tók upp nýja lyfjastefnu í júlí í samstarfi við USADA og er Cro Cop sá fyrsti til að falla á lyfjaprófi síðan stefnan tók gildi. Ekki kemur fram hvaða efni fundust í lyfjaprófi hans en ljóst er að hann mun fá keppnisbann þó hann sé hættur.
Á þriðjudaginn tilkynnti hann á opinberri Facebook síðu sinni að hann myndi ekki mæta Anthony Hamilton síðar í mánuðinum vegna meiðsla. Í tilkynningunni ýjaði hann einnig að því að hann væri hættur vegna þrálátra meiðsla. Í tilkynningunni sagðist Cro Cop kljást við axlarmeiðsli og þrátt fyrir að vera á „lyfjakokteil“ hefði ekkert virkað til að meðhöndla meiðslin. Mögulega hefur eitthvað ólöglegt verið í þessum lyfjakokteil.
Ekki er vitað hversu langt bann hann mun fá en USADA mun væntanlega senda frá sér tilkynningu á næstu dögum þar sem nánar verður greint frá lyfjamisferli hans.
Þetta er sorglegur endir á löngum og farsælum ferli hjá hinum króatíska Cro Cop.