0

Cyborg vill fá afsökunarbeiðni frá Dana White og Joe Rogan

Cris ‘Cyborg’ Justino barðist sinn síðasta bardaga á núverandi samningi við UFC um síðustu helgi. Áður en hún tekur næsta skref vill hún fá afsökunarbeiðni frá Dana White og Joe Rogan.

Cyborg er á krossgötum á ferli sínum. Cyborg þarf nú að ákveða hvort hún haldi áfram að berjast í UFC eða söðli um. Eftir sigur hennar á Felicia Spencer á UFC 240 er hún samningslaus en UFC hefur 90 daga til að ná samningum við hana áður en hún má ræða við önnur bardagasamtök.

Áður en hún semur við UFC vill hún fá afsökunarbeiðni frá Dana White, forseta UFC, og UFC-lýsandanum Joe Rogan fyrir opinber ummæli þeirra. Dana White líkti Cyborg við Wanderlei Silva í kjól árið 2014 sem Cyborg var afar ósátt með. Þá grínaðist Joe Rogan með að Cyborg væri með karlmanns kynfæri í hlaðvarpi sínu árið 2015.

Joe Rogan hefur þegar beðið Cyborg afsökunar á þessum ummælum sínum í einkasamtali við hana en nú vill hún fá opinbera afsökunarbeiðni.

Dana White hefur ekki beðist afsökunar á sínum ummælum en Cyborg er einnig ósátt við ummæli Dana um að Cyborg hafi ekki viljað mæta Nunes aftur. Cyborg tapaði í fyrsta sinn í langan tíma þegar Nunes rotaði hana í desember í fyrra. Cyborg lýsti því strax yfir að hún vildi fá annan bardaga gegn Nunes en Dana White hefur ítrekað sagt að svo sé ekki.

Cyborg krafðist svara frá Dana strax eftir sigurinn á Spencer. „Ég horfði í augun á honum, tók í höndina og spurði hvers vegna hann væri að ljúga. Ég sendi honum SMS strax eftir bardagann þar sem ég sagðist vilja fá annan bardaga gegn Nunes. Ég spurði hann af hverju hann væri að þessu en hann hafði ekkert að segja. Það voru fullt af myndavélum þarna,“ sagði Cyborg við ESPN í gær.

„Þetta er bara einelti. Hann ræður öllu. Hvernig getur sá maður gert grín að íþróttamönnum? Ef það er stelpa, segðu að hún sé með typpi og þá er hún gaur. Það verða að vera reglur. Þetta er ekki rétt.“

Það verður áhugavert að sjá hvort Cyborg fái það sem hún óskar eftir og hvort hún semji við UFC aftur.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.