Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir keppir sinn fyrsta MMA bardaga á morgun þegar hún stígur í búrið á Evrópumótinu í Prag. Dagmar kveðst vera ógeðslega stressuð en er samt spennt fyrir fyrsta bardaganum.
Dagmar mætir Anette Österberg frá Finnlandi á morgun en bardaginn fer fram í fluguvigt (56,7 kg).
Þetta er ekki fyrsta Evrópumótið hjá Dagmari enda var hún einnig á mótinu í Birmingham í fyrra en þá sem nuddari liðsins. Nuddbekkurinn verður ekki með í ár og einbeitir Dagmar sér bara að keppninni.
Það er alltaf sérstök reynsla að keppa í MMA og þá sérstaklega í fyrsta sinn. Dagmar segir þetta vera mikinn tilfinningarússibana. „Ég er sjúklega peppuð fyrir þessu, þetta er emotional rollercoaster. Er ógeðslega stressuð en samt spennt. Þetta leggst bara vel í mig,“ segir Dagmar.