Gunnar Nelson mætir Santiago Ponzinibbio á UFC bardagakvöldinu í Glasgow í kvöld. Gunnar vigtaði sig inn í gær en tók því annars rólega. Hér fáum við að sjá aðeins á bakvið tjöldin hjá Gunnari í gær.
Gunnar vaknaði árla morguns og skellti sér í bað til að svitna aðeins fyrir vigtunina. Alvöru vigtunin fór fram á milli 9 og 11 um morguninn og þurfti Gunnar að taka einhver 900 grömm af sér áður en haldið var í vigtunina. Gunnar vigtaði sig inn 170 pund eða um það bil 77 kg.
Eftir vigtunina fór Gunnar strax að drekka „rehydration“ drykki og safna aftur vatninu sem hann hafði losað sig við (þó það hafi ekki verið mikið).
Hann pantaði sér svo morgunmat í rúminu; egg, beikon og hafragraut áður en hann tók tveggja tíma lagningu. Gunnar vaknaði svangur og fékk sér Sushi frá Whole Foods áður en hann lagði sig aftur.
Sjónvarpsvigtunin fór svo fram kl 17 í gær í The SSE Hydro höllinni í Glasgow þar sem Gunnar fékk frábærar móttökur frá áhorfendum. Eftir vigtunina gaf hann nokkrar eiginhandaráritanir til aðdáenda sem biðu á hótelinu eftir bardagamönnunum.
Um kvöldið skellti Gunnar sér á steikhús ásamt fríðu föruneyti. Lubbinn var svo tekinn af upp á hótelherbergi um kvöldið þegar hann snoðaði sig. Gunnar horfði svo á bardaga Sunnu Rannveigar í Invicta en Sunna átti frábæra frammistöðu þegar hún sigraði Kelly D’Angelo.