Friday, April 19, 2024
HomeErlentDamir Hadžović: Því meiri sem áhættan er, því betri verður uppskeran

Damir Hadžović: Því meiri sem áhættan er, því betri verður uppskeran

Mynd af Facebook síður Damir.
Mynd af Facebook síður Damir.

Damir Hadžović er 29 ára Bosníumaður sem berst sinn fyrsta bardaga í UFC í apríl. Damir býr og æfir í Danmörku en við heyrðum í honum á dögunum og spjölluðum við hann um ferilinn, bardagakvöldið í Zagreb og fleira.

Damir Hadžović, 10-2, fæddist í Bosníu en hefur að mestu alist upp í Danmörku. Sex ára gamall fluttist Damir til Danmerkur sem flóttamaður vegna stríðsins í Júgóslavíu ásamt bróður sínum, móður, afa og ömmu.

Damir samdi nýlega við UFC og var hæstánægður er hann fékk fréttirnar. „Þjálfari minn og bróðir minn komu mér á óvart og mættu heim til mín og sögðu mér að ég væri kominn í UFC. Fyrstu tvær til þrjár sekúndurnar var ég í sjokki og kiknaði í hnjánum, þetta var geðveikt! Þetta er búinn að vera langur vegur svo það var súrrealískt að fá loksins fréttirnar og kannski var tár á hvarmi,“ segir Damir og hlær.

„Ég vissi að UFC var með augun á mér. Þegar þeir fóru til Dublin í október og aðalbardaginn [á milli Dustin Poirier og Joseph Duffy] féll niður var möguleiki á að ég myndi koma inn með tveggja daga fyrirvara. Það varð þó ekkert úr því en ég vissi að ég gæti komist í UFC fljótlega.“

Damir berst á bardagakvöldinu í Zagreb í Króatíu þann 10. apríl en þetta verður fyrsta heimsókn UFC til Króatíu. „Þetta verður sögulegt kvöld í Zagreb, nálægt heimalandinu mínu. Í Króatíu og Bosníu er talað sama tungumálið svo fólk sér nánast sömu fréttir í löndunum. Þannig að þetta er nokkurn veginn eins og að berjast á heimavelli.“

Damir var duglegur að láta heyra í sér á samfélagsmiðlum til að reyna að komast á bardagakvöldið í Zagreb. „Ég vildi ólmur fá að berjast þarna og fannst eins og ég þyrfti að gera eitthvað sjálfur til að vekja á mér athygli til að komast á bardagakvöldið. Ég veit samt ekki hvort þetta hafi haft einhver áhrif.“

Damir berst í léttvigt og af tíu sigrum hans hafa fimm komið eftir rothögg, þrír sigrar eftir uppgjafartök og tvisvar hefur hann sigrað eftir dómaraákvörðun. Bæði töp Damir komu gegn mönnum sem áttu síðar eftir að berjast í UFC.

Damir byrjaði tvítugur að aldri að æfa MMA og hafði þá enga fyrri reynslu af bardagaíþróttum. „Ég spilaði fótbolta þar til ég var 15 ára og var svo bara að lyfta lóðum þar til ég fann MMA. Ég varð strax háður því eftir minn fyrsta MMA tíma. Ári síðar byrjaði ég að boxa þar sem það voru bara tveir MMA tímar á viku þar sem ég bjó [í Esbjerg]. Mér fannst ég verða að slást eitthvað hina daga vikunnar og boxaði því í tvö ár. Núna er það hins vegar bara MMA, allan daginn, alla daga,“ segir Damir sem æfir hjá Rumble Sports í Danmörku.

Damir barðist víðs vegar um Evrópu áður en hann samdi við UFC. Hann barðist í Cage Warriors bardagasamtökunum þar sem hann rotaði m.a. fyrrum UFC bardagamanninn John Maguire. Damir átti þó oft í vandræðum með að fá andstæðinga og er því afar feginn að hafa samið við UFC. „Það gat verið mjög erfitt og pirrandi að fá bardaga. Ég barðist aðeins einu sinni árið 2015 þar sem enginn vildi berjast við mig. Í Cage Warriors voru fimm til sex bardagamenn sem voru nálægt titilbardaga en neituðu að berjast við mig. Það var samt smá kúl en mjög pirrandi á sama tíma. En ég æfði bara vel og var tilbúinn ef eitthvað myndi bjóðast með skömmum fyrirvara sem gerði mig bara að mun betri bardagamanni. Ég æfði nánast á hverjum degi til að vera tilbúinn og lærði mikið af því.“

Damir mætir Mairbek Taisumov í sínum fyrsta UFC bardaga og kemur valið eilítið á óvart. Taisumov er 4-1 í UFC og átti síðast að keppa við Beneil Dariush sem er í 7. sæti á styrkleikalista UFC í léttvigtinni. Þetta verður því gríðarlega erfið prófraun fyrir Damir en það er ekki oft sem maður sér nýliða fá svona erfiðan bardaga í frumraun sinni. „Þetta verður vissulega erfiður bardagi og sérstaklega með tilliti til þess að þetta er frumraun mín í UFC en ég fokking elska það! Það fær mig til að æfa meira og betur en allir aðrir. Þetta hvetur mig áfram á hverjum degi og fær mig til að mæta í hvern einasta tíma. Ég borða hollt og er að gera alla réttu hlutina sem bardagamaður.“

„’Því meiri sem áhættan er, því betri verður uppskeran’ er nokkuð sem ég lifi eftir. Ég vil taka áhættuna og er tilbúinn að taka þessa áhættu. Það sem skiptir mig mestu máli er að gefa aðdáendum stórkostlegan bardaga sem fólk á eftir að muna lengi eftir. Og þegar ég er búinn að vinna þennan bardaga verð ég strax kominn í topp 20 í UFC og ég er tilbúinn til að taka þetta stökk. Ég treysti og trúi á mína getu og veit að ég get barist við þá bestu. Núna er ég kominn í UFC, hefjum þetta ævintýri!“

UFC bardagakvöldið í Zagreb fer fram sunnudaginn 10. apríl og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Junior dos Santos og Ben Rothwell.

Hér má sjá sigur hans á John Maguire.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular