Thursday, April 25, 2024
HomeErlentDaniel Cormier viðurkennir að höndin sín sé ekki enn orðin 100%

Daniel Cormier viðurkennir að höndin sín sé ekki enn orðin 100%

Daniel Cormier mætir Derrick Lewis á UFC bardagakvöldinu í Madison Square Garden í næsta mánuði. Bardaginn kemur upp með skömmum fyrirvara en Cormier viðurkennir að hann sé ekki alveg 100% fyrir bardagann.

UFC hefur lengi leitað eftir aðalbardaga kvöldsins á UFC 230 þann 3. nóvember. Nokkrum nöfnum var fleygt fram en í síðustu viku staðfesti UFC að Daniel Cormier og Derrick Lewis myndu vera í aðalbardaga kvöldsins. Þau tíðindi komu nokkuð á óvart enda var talið að Cormier gæti ekki barist aftur á þessu ári vegna handarmeiðsla.

„Ég vil alltaf keppa en var meiddur og ætlaði bara að bíða eftir Brock Lesnar. Síðan hringir UFC í mig og bað mig um að berjast eins og vanalega nema í þetta sinn báðu þeir mig um að berjast eftir nokkrar vikur,“ sagði Cormier í The MMA Hour á mánudaginn.

Cormier samþykkti bardagann enda sagði hann að tilboðið hefði verið of gott til að neita. „Höndin er nógu góð til að berjast. Hún er ekki 100% ef ég á að segja eins og er. Ég get lokað hnefanum en ekki alla leið.“

„Ég get gert mikið. Ég get sparrað eitthvað. En ég er ekki að kýla eins fast með hægri eins og ég geri vanalega. Ég get glímt en ég fer bara mjög varlega. Ég er að vinna í kringum þetta því ef eitthvað á að gerast væri ég til að það myndi gerast í bardaganum frekar en á æfingu. Hversu ömurlegt væri það að taka þennan bardaga með þriggja vikna fyrirvara og þurfa svo að bakka út viku seinna?“

Stipe Miocic vill ekkert heitar en að fá annan titilbardaga eftir að hafa tapað titlinum til Daniel Cormier í sumar. Cormier viðurkennir þó að hann hefði ekki barist við Miocic með svo skömmum fyrirvara.

„Ég hefði ekki samþykkt annan bardaga gegn Stipe Miocic með svo skömmum fyrirvara. Hann er of góður undir þessum kringumstæðum. Ég er ekki að segja að Derrick Lewis sé ekki góður en Stipe er fær um að vinna mig með mismunandi leiðum. Hann gerir ólíka hluti vel. Í þessum bardaga þarf Derrick bara að rota mig.“

Derrick Lewis hefur unnið níu af síðustu tíu bardögum sínum í UFC en nú síðast sáum við hann rota Alexander Volkov á ótrúlegan hátt á UFC 229. Lewis er tæknilega séð með ekki margt til brunns að bera en hann er með mikinn höggþunga og slíkt má aldrei vanmeta segir Cormier.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular