Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentDarren Till: Ég hef enga afsökun

Darren Till: Ég hef enga afsökun

Darren Till náði ekki vigt í morgun fyrir bardaga sinn gegn Stephen Thompson á morgun. Bardaginn fer ennþá fram en Till bauðst til að gefa Thompson öll launin sín fyrir bardagann á morgun.

Darren Till var 174,5 pund í vigtuninni í morgun en hefði þurft að vera 171 pund eða minna. Thompson hefur samþykkt að taka bardagann þrátt fyrir að Till sé of þungur en Thompson fær 30% af launum Till fyrir bardagann. Þá þarf Till að vigta sig inn aftur á morgun kl. 13 og má ekki vera þyngri en 188 pund (85,5 kg).

Vigtunin fór fram á milli 9 og 11 í morgun en kl. 11 var Till hvergi sjáanlegur. Starfsmaður UFC upplýsti þá fjölmiðla á staðnum að Till fengi lengri tíma til að vigta sig inn vegna neyðartilfellis í fjölskyldunni.

„Ég hef enga afsökun. Ég veit hvað UFC sagði og upplýsti fjölmiðla. Þegar ég byrjaði að skera niður fékk ég neyðarsímtal, fjölskyldumál. Ég þurfti að fara upp á spítala. Ég átti bara fimm kíló eftir en vanalega eru það sex eða sjö á þessum tímapunkti. Ég var í góðu lagi. Ég reyndi að fara í sánuna, reyndi að fara í baðið en þetta var bara ekki að gerast. Ég var úrvinda,“ sagði Till við MMA Junkie eftir vigtunina.

„Ég náði ekki vigt og skammast mín innilega fyrir það, en vonandi er bardaginn ennþá á dagskrá. Ég þarf ennþá að vigta mig inn á morgun og sjáum hvernig það gengur. Ég veit að þeir eru harðir á að ég sé undir ákveðinni þyngd þannig að boltinn er hjá þeim. Ég bauðst til að gefa honum 100% launa minna. Peningar skipta ekki máli, peningarnir koma seinna.“

Eins og áður segir þarf Till að vigta sig inn aftur á morgun og verður Stephen Thompson og hans lið viðstaddir vigtunina. Till kveðst hafa verið 90 kg í sínum síðasta bardaga og verður því áhugavert að sjá hvort Till verði í standi til að berjast á morgun.

„Þeir eru harðir á að ég verði 83-85 kg á morgun sem er satt að segja slæmt fyrir mína heilsu. Við sjáum hvað setur þegar ég vigta mig í fyrramálið. Ég er þegar farinn að drekka vatn og á eftir að standast læknisskoðun og þarf að æfa í kvöld eða á morgun. Andlega er ég tilbúinn í hvað sem er. Ef ég þarf að æfa í fyrramálið og skera niður aftur mun ég gera það. 85 kg á morgun er ekki nóg. Ég þyngist svo hratt, ég er með hæg efnaskipti. Ég byrjaði að drekka vatn áðan og rauk upp í þyngd strax.“

Till hefur ekki viljað greina frá neyðartilfellinu í fjölskyldunni en Nick Peet greindi frá því að ólétt kærsta Till hafi þurft að fara upp á spítala í nótt.

„Það var mér að kenna að ég náði ekki vigt, mín sök. En með neyðartilfellið í fjölskyldunni, við sjáum hvað setur. Á morgun vil ég bara berjast, klára þetta og hefja upprisu mína á ný.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular