Saturday, April 27, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Thompson vs. Till

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Thompson vs. Till

Á morgun heldur UFC bardagakvöld í Liverpool í fyrsta sinn. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Darren Till og Stephen Thompson en gríðarleg spenna ríkir fyrir bardaganum og þá sérstaklega eftir vigtunarklúður Darren Till. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana á morgun.

Stenst Darren Till pressuna?

Gríðarleg pressa er á Darren Till fyrir bardagann á morgun. Till var bókaður í aðalbardaga kvöldsins á bardagakvöldinu í Liverpool án þess að vitað var hver andstæðingur hans yrði. Eftir sigurinn á Donald Cerrone beið hann lengi eftir rétta bardaganum og fékk hann loksins bardaga gegn Stephen Thompson sem hann þráði svo mikið. Þetta er því „The Darren Till show“ á morgun gegn drauma andstæðingnum. Till hefur ítrekað sagt að hann trúi því að hann sé besti bardagamaður allra tíma og ætli að sýna það gegn Thompson. Nánast allir í höllinni keyptu miða til að sjá Till og ber hann því væntingar borgarinnar á herðum sér. Auk þess náði hann ekki vigt í dag og þarf því alvöru frammistöðu til að fá fólk til að gleyma því klúðri. UFC vonast til að gera Till að stórri stjörnu og það gæti gerst ef hann nær stórum sigri á heimavelli. Thompson er þó áskorandi nr. 1 í veltivigtinni og gríðarlega erfitt að reikna hann út. Þetta ætti að verða frábær bardagi sem enginn má missa af!

Minnir Magny á sig?

Neil Magny mætir Craig White í næstsíðasta bardaga kvöldsins en upphaflega átti Magny að mæta Gunnari Nelson. Neil Magny hefur í raun til lítils að vinna í Liverpool eftir að Gunnar Nelson datt út. Það er þó alltaf gott að ná sigri í veltivigtinni, minna aðeins á sig, fá athygli, fá borgað og bæta í reynslubankann. Magny þarf að nýta tækifærið vel og sýna þann mun sem er á milli topp 10 bardagamanns í UFC og nýliða.

Hiti í fjaðurvigt

Tveir ansi spennandi bardagar í fjaðurvigt fara fram á aðalhluta bardagakvöldsins á morgun. Makwan Amirkhani mætir Jason Knight og Daninn Mads Burnell mætir Arnold Allen. Báðir bardagar ættu að verða mjög skemmtilegir enda allir fjórir bardagamenn skemmtilegir áhorfs.

Mynd: Snorri Björns.

Íslandsvinur berst eftir langt hlé

Tom Breese hefur heimsótt Ísland tvisvar á þessu ári en hann mætir Dan Kelly í millivigt á morgun. Breese kom hingað fyrst í febrúar til að keppa á Bolamótinu þar sem hann tapaði fyrir Sighvati Magnúsi Helgasyni og kom svo aftur í apríl til að undirbúa sig fyrir bardagann á morgun. Breese er mikið efni en hefur ekki barist í tvö ár vegna meiðsla. Breese barðist áður fyrr í veltivigt en berst sinn fyrsta bardaga í millivigt á morgun og getur hann stimplað sig vel inn í millivigtina með góðum sigri á Kelly.

Frábær tímasetning!

Bardagarnir á morgun fara snemma í gang. Fyrsti bardagi dagsins hefst kl. 14:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 17 og verður sýndur á Stöð 2 Sport 2 og Fight Pass rás UFC. Fátt betra en að liggja í sófanum á sunnudegi yfir UFC í beinni útsendingu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular