Darren Till vill ólmur fá sinn næsta bardaga og er greinilega til í að berjast við alla. Gunnar Nelson og Stephen Thompson hafa verið nefndir ti sögunnar og nú hefur Kamaru Usman bæst í hópinn.
Darren Till stökk upp styrkleikalistann eftir sigur á Donald ‘Cowboy’ Cerrone í október. Eftir bardagann vildi hann mæta Stephen ‘Wonderboy’ Thompson og sagði Dana White, forseti UFC, að allt væri klappað og klárt fyrir bardagann. Bardaginn átti að vera aðalbardaginn í fyrstu heimsókn UFC til Liverpool, heimaborg Darren Till. Stephen Thompson kannaðist þó ekkert við bardagann og þurfti fyrst að ganga úr skugga um að hann væri heill heilsu eftir bardaga hans gegn Jorge Masvidal fyrr í mánuðinum. Thompson taldi sig vera puttabrotinn á báðum þumlum og fór í myndatöku á dögunum.
Darren Till lýsti því þá yfir að enginn þorði að berjast við sig. Gunnar Nelson kastaði nafninu sínu í pottinn og virtust báðir bardagamenn vera til í að mæta hvor öðrum. Báðir voru til í að berjast og skipti þá engu máli hvort bardaginn færi fram í Liverpool þann 28. febrúar eða í London þann 17. mars. Nýjustu fregnir herma að ekkert verði af fyrirhuguðu bardagakvöldi í Liverpool í febrúar og ætlar UFC að láta eina heimsókn til Englands duga á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Síðan þá hefur Kamaru Usman bæst í hópinn.
Yesss oh yesssss!!! Letsssss go donut head @ufc @Mickmaynard2
— Darren Till (@darrentill2) November 19, 2017
Usman á að mæta Emil Weber Meek á UFC 219 þann 30. desember en Norðmaðurinn Meek á í erfiðleikum með að fá vegabréfsáritun fyrir bardagann og er bardaginn því í hættu. Ekki er búið að aflýsa bardaganum en Usman virðist þegar vera farinn að hugsa um næsta andstæðing.
Auk fyrrgreindra bardagamanna má ekki gleyma Mike Perry. Perry mætir Santiago Ponzinibbio í desember en Darren Till og Perry lentu í orðaskiptum eftir sigur Till í október.
Darren Till virðist því vera vinsælasta stelpan á ballinu þessa stundina og verður áhugavert að sjá hvaða andstæðingur verður fyrir valinu. Vonandi fær okkar maður bardagann enda væri það risa tækifæri en jafnframt hættulegur bardagi.