Carlos Condit snýr aftur í ágúst þegar hann mætir Demian Maia. Condit íhugaði að hætta í íþróttinni en ætlar sem betur fer að halda áfram.
Carlos Condit tapaði naumlega fyrir Robbie Lawler um veltivigtartitilinn í byrjun árs. Bardaginn var sá besti á árinu hingað til og fannst mörgum Condit eiga sigurinn skilið.
Eftir bardagann var Condit ekki viss hvort hann ætlaði að halda áfram í MMA nema hann fengi annan titilbardaga. Þegar í ljós kom að Tyron Woodley yrði næsti andstæðingur meistarans Robbie Lawler efuðust margir um hvort Condit myndi snúa aftur. Það eru því gleðitíðindi að hann ætli að halda áfram enda einn sá skemmtilegasti í veltivigtinni.
Vegur Demian Maia að titilbardagnum á svo sannarlega ekki að vera auðveldur. Eftir fimm sigra í röð fannst mörgum að röðin væri komin að hinum 38 ára Brasilíumanni. UFC var ekki á sama máli og bókaði Tyron Woodley í næsta titilbardaga.
Eftir sigur Stephen Thompson á Rory MacDonald fyrr í mánuðinum er ljóst að biðin hjá Maia eftir titilbardaga yrði ansi löng. Thompson mun mæta sigurvegaranum úr viðureign Woodley og Lawler á UFC 201 í lok júlí.
Eftir sigur Maia á Matt Brown á UFC 198 óskaði hann eftir titilbardaga eða andstæðingi sem er fyrir ofan hann á styrkleikalistanum. Maia fær ekki ósk sína uppfyllta en fær þó hér stóran bardaga.
UFC 202 stefnir í afar skemmtilegt bardagakvöld. Conor McGregor mætir Nate Diaz í aðalbardaga kvöldsins en fyrr í dag greindum við frá nokkrum öðrum skemmtilegum bardögum sem staðfestir hafa verið að undanförnu. Bardagakvöldið fer fram þann 20. ágúst í Las Vegas.