Demian Maia er ekki að fara að fá titilbardaga á næstunni. UFC staðfesti í gærkvöldi bardaga Demian Maia gegn Jorge Masvidal.
Bardaginn fer fram á UFC 211 í Dallas í maí. Upphaflega ætlaði Demian Maia að bíða eftir titilbardaganum sem honum var lofað en nú, þremur dögum fyrir titilbardaga Tyron Woodley og Stephen Thompson, tilkynnir UFC þennan bardaga.
Þeir Woodley og Thompson berjast um veltivigtarbeltið á UFC 209 um helgina. Þetta er endurat eftir að fyrri bardaginn þeirra endaði með jafntefli á UFC 205 í nóvember. Maia hefur verið staðráðinn í að bíða eftir titilbardaganum og hafnað bardögum hingað til. Það kemur því verulega á óvart að hann skuli hafa tekið þessum bardaga á þessum tímapunkti.
Bardaginn á UFC 211 fer fram í maí, rúmum tveimur mánuðum eftir titilbardagann um helgina. Það gæti því farið svo að Maia hafi verið sagt að hann sé ekki næstur í röðinni í titilbaráttunni. Hugsanlega er gamla goðsögnin Georges St. Pierre að fá næsta titilbardaga. Allt eru þetta þó aðeins vangaveltur og alls óvíst hvenær og í hvaða þyngdarflokki Georges St. Pierre muni berjast í.
Jorge Masvidal kom sér heldur betur í eltingarleikinn um titilbardaga með frábærum sigri á Donald Cerrone í janúar. Hann er með þrjá sigra í röð á meðan Maia er með sex sigra í röð.
UFC 211 fer fram þann 13. maí en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Stipe Miocic og Junior dos Santos um þungavigtartitilinn.