spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaDiego Björn: Algjör steypa að taka þennan bardaga

Diego Björn: Algjör steypa að taka þennan bardaga

Diego Björn Valencia vann reynsluboltann Shaun Lomas með hengingu í 3. lotu í gær. Diego var ánægður með sigurinn enda frábær stemning í höllinni á Hálsi í Færeyjum.

Þegar við spjölluðum við Diego var hann á hótelherberginu í Færeyjum en liðið heldur heim á leið snemma á morgun.

Bardaginn var aðalbardagi kvöldsins í gær en Diego tók bardagann með aðeins tveggja daga fyrirvara. „Ég var að klára sparr æfingu á fimmtudagskvöldið þegar ég heyrði af þessu. Ég hefði átt að vera slakur þann dag en tók glímu í hádeginu og sparr um kvöldið. Var vel þreyttur í líkamanum eftir það,“ segir Diego um tildrög bardagans.

Andstæðingurinn var með 90 bardaga að baki en Diego hikaði ekki í eina sekúndu þegar honum var boðið að taka bardagann.

„Halli [Nelson] sagði að aðalbardaginn hefði dottið út og þeim vantaði fighter og ég sagðist vera til í þetta. Svo fórum við að skoða þennan gaur, nátturulega fáranlegasta record sem ég hef séð, aldrei séð neitt í líkingu við þetta.“

„Það er eitt ár síðan ég barðist síðast og ég vildi bara fá bardaga. Auðvitað algjör steypa að taka þetta, ég var bara 1-1 og hann með 90 bardaga. En mig langaði bara að slást, komið ár síðan ég barðist síðast og þetta gengur hægt að fá bardaga. Segi ekki nei við neinu núna, annars verð ég bara gamall.“

Diego var ekki búinn að æfa af fullum krafti í aðdraganda bardagans þar sem hann hafði verið að glíma við hnémeiðsli. „Ég er búinn að vera eitthvað tæpur í hnénu. Fyrir mánuði síðan kom einhver smellur í hnéð en ekkert alvarlegt. Ég er ekki búinn að geta glímt mikið síðan þá.“

Þrátt fyrir glímuleysið tókst Diego að klára bardagann með „rear naked choke“ í 3. lotu og var nokkuð sáttur með frammistöðuna. „Þetta var allt í lagi. Ég var aðeins of graður í byrjun þegar ég náði mount. Ég var búinn að horfa á hina strákana klára [úr mount], Björn Lúkas og Tobba, og hélt ég gæti klárað bara í mountinu en það voru mistök. Hann náði að snúa mér við.“

„Hann var nautsterkur, ég var eiginlega ekkert búinn að skoða hann en ég bjóst við að hann væri miklu meira að fara að slugga við mig. Hann notaði hendurnar eiginlega ekki neitt. Tók nokkur spörk og hljóp síðan í mig til að reyna að taka mig niður. Ég talaði aðeins við hann á barnum eftir bardagann og þá sagðist hann hafa séð fyrsta áhugamannabardagann minn, þar sem ég headkickaði gæjann, og þess vegna ákvað hann að reyna að taka mig niður.“

„Annars hefði ég viljað strike-a meira, þegar ég notaði hendurnar þá virkaði það mjög vel. Annars get ég ekki verið annað en sáttur, ánægður að hafa þreytt hann í 3. lotunni. Ég var mjög þreyttur í 3. lotunni en hann var búinn.“

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Þetta var 91. bardagi Lomas í MMA en hann tók 15 bardaga í fyrra og er afar sjaldséð að sjá svona feril. „Ég spjallaði ekki mikið við hann, talaði aðallega við vin hans sem var með honum. Ég er ekki viss en held að hann sé pínu skrítinn, virkar þannig einhvern veginn. Þeir sögðu okkur að hann væri með einhverja 200 kickbox bardaga líka en ég trúi því eiginlega ekki, ekki séns,“ segir Diego og hlær.

Diego líkaði vel við sig í Færeyjum og líkti því við Akureyri – mikið um eldri hús og sveitalegt. Stemningin á bardagakvöldinu í gær var þrælgóð og tóku áhorfendur Víkingaklappið í hvert sinn sem Íslendingarnir börðust.

„Ég hef aldrei upplifað annað eins. Ef við myndum berjast í Mjölni með Íslendinga í salnum væri það eins og þetta. Án þess að ýkja tók ég örugglega svona 100 selfies eftir bardagann með random fólki og krökkum. Þannig að þetta var mjög skrítið og aldrei upplifað annað eins. Þeir voru algjörlega á okkar bandi enda hata þeir Dani og elska Íslendinga.“

„Það er ekki einu sinni MMA gym í Færeyjum en samt eru þeir að halda MMA mót en ekki við. Það er bara fáranlegt, það hlýtur að vera hægt að redda þessu fljótlega. Það er búið að tala um að redda því síðustu ár þannig að ég er ekki mjög bjartsýnn en vonandi getur maður tekið bardaga á Íslandi áður en maður verður of gamall.“

Diego gengur nokkuð heill frá bardaganum en vonandi mun ekki líða jafn langur tími þar til hann fær sinn næsta bardaga. „Ég er alveg góður, pínu tæpur í öxlinni þar sem hann var nálægt því að taka Kimura einu sinni, annars bara góður en smá þunnur. Helvítis viský hjá Jóni Viðari,“ segir Diego að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular