spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaDiego Björn: Eina sem ég ætlaði mér alls ekki að gera var...

Diego Björn: Eina sem ég ætlaði mér alls ekki að gera var að enda undir

Mynd: Mike Ruane.

Diego Björn Valencia fór með sigur af hólmi á Fightstar bardagakvöldinu um síðustu helgi. Eftir að hafa enn einu sinni tekið bardaga með skömmum fyrirvara er planið að koma sér í betra form svo hann verði meira tilbúinn næst þegar kallið kemur.

Diego Björn (3-2) sigraði Dawid Panfil með armlás úr „triangle“ stöðunni í 2. lotu. Diego tók bardagann með fjögurra daga fyrirvara eftir að upprunalegi andstæðingur Panfil datt út. Diego var því afar sáttur með sigurinn og var orðinn frekar þreyttur snemma í bardaganum. „Ég fann það í upphituninni að vöðvarnir voru fljótir að þreytast og mér fannst ég vera svolítið þungur á mér. Ég tengi það við weightcuttið en 8 kg á fjórum dögum er örugglega ekki það besta sem maður getur gert fyrir líkamann,“ segir Diego.

„Þannig að ég tók bara frekar stutta og létta upphitun og sparaði orkuna fyrir bardagann. Fyrsta lotan fór eiginlega algjörlega samkvæmt leikáætlun en planið mitt var að halda fjarlægð og countera með vinstri, bíða eftir flurry frá honum, clincha og ná fellunni minni. Ég var svo farinn að hitta hann vel með sparki í utanvert lærið sem var farið að opna fyrir fleiri spörk þar sem ég sá að hann var ekkert að fíla að fá spörk í löppina. Eftir bardagann kvartaði hann aðeins yfir löppinni sinni eftir spörkin mín, en var annars bara hress gaur og með enga stæla.“

Mynd: Mike Ruane.

Diego náði fellu í 1. lotu en í 2. lotu rann hann til og endaði á bakinu. Það reyndist þó bara vera gæfuspor enda kláraði hann bardagann af bakinu. „Í annarri lotu reyni ég svo flying knee sem misheppnast og ég renn og enda á bakinu. Ég man að ég hugsaði bara ‘plís komdu í guardið mitt’ því að ég nennti ekki að standa upp. Sem var algjörlega úr takt við leikáætlunina því það var í rauninni það eina sem ég ætlaði mér alls ekki að gera að enda undir. En sem betur fer þá tókst mér að ógna armbarnum nógu mikið svo hann gleymdi að hugsa um triangle henginguna. Hann var svo ekkert að tappa þó ég væri með vel þétt triangle og var að gefa thumbs up til þjálfaranna sinna þegar að Valentin [Fels, þjálfari] öskrar á mig að fara aftur í armbarinn sem ég svo náði.“

Fjölmargir Íslendingar hafa barist á Fightstar kvöldunum en þetta var í fyrsta sinn sem Diego berst þar. „Ég talaði ekki mikið við promoterinn Raj hjá Fightstar en var búinn að heyra frá öllum að þetta væri mjög fínn gaur og hann virkaði bara mjög almennilegur. Honum fannst t.d. leiðinlegt að geta ekki borgað okkur meira og mælti með að við myndum skoða það að berjast í Svíþjóð og að þar væru aðeins meiri peningar í þessu. Þannig kannski maður kanni það eitthvað.“

„Það var reyndar einn galli við bardagakvöldið og það var dúkurinn sem var á gólfinu í búrinu. Þetta var svona dúkur sem breytist í svell þegar hann blotnar en ég hef þann einstaka hæfileika að svitna eins sturtuhaus. Þannig að gólfið var mjög sleipt og ég held að andstæðingurinn hafi runnið nokkrum sinnum og ég einu sinni eftir einhvern svitapoll.“

Mynd: Mike Ruane.

Diego kemur alveg heill úr bardaganum og var strax mættur á erfiða æfingu á mánudeginum eftir bardagann. „Það eru fullt af grjóthörðum útlendingum á landinu núna að hjálpa Gunna fyrir bardagann sinn svo það er gott tækifæri fyrir mig að fá að slást við þá.“

„Núna er líka planið að reyna að koma mér í betra form. Það er alltaf gott reality check þegar maður tekur bardaga með skömmum fyrirvara og þarf að horfa á bumbuna á öllum myndunum. En við í keppnisliðinu erum komin með flott æfingaprógram frá Ingu Birnu svo nú er stefnan sett á sixpack.“

Diego er hálf partinn orðinn þekktur fyrir að taka bardaga með skömmum fyrirvara en hingað til hefur það bara gengið nokkuð vel. „Ég held ég sé búinn að sýna að ég er alltaf til í að berjast, en fyrir þrjá pro MMA sigra mína hef ég fengið tíu daga, tvo daga og fjóra daga núna eða samtals 16 daga í undirbúning. Næsti bardagi kemur þá bara þegar hann kemur.“

Diego er ekki með neina dagsetningu í huga fyrir sinn næsta bardaga en eins og hann hefur áður sýnt er hann alltaf til. Hvetjum lesendur til að fylgjast með Facebook-síðu Diego hér.

Mynd: Mike Ruane.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular