spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentDominick Cruz bar sig ótrúlega vel eftir tapið

Dominick Cruz bar sig ótrúlega vel eftir tapið

Dominick Cruz tapaði bantamvigtartitli sínum til Cody Garbrandt í gær. Þetta var aðeins annað tapið hans á ferlinum en hann tók tapinu ótrúlega vel á blaðamannafundinum eftir bardagann.

Garbrandt sigraði eftir dómaraákvörðun og náði inn fleiri höggum og fellum í bardaganum. Aðspurður hvort kvöldið hefði verið erfitt hafði Cruz þetta að segja:

„Hvað er svona erfitt við þetta kvöld? Töp eru partur af lífinu. Ef þú tapar aldrei nærðu ekki að vaxa. Þetta er ekki erfitt, svona er lífið,“ sagði Cruz standandi á blaðamannafundinum með sólgleraugu.

Cruz var kýldur niður nokkrum sinnum í bardaganum og tók þrjár lotur og þar af var ein skoruð 10-8.

„Ég naut hverrar einustu sekúndu í þessum bardaga. Ég er ekki vonsvikinn með sjálfan mig. Ég tapaði og mun taka tapinu eins og maður.“

Þetta var fyrsta tap Cruz síðan hann tapaði fyrir Urijah Faber árið 2007. „Þetta er partur af þessu og það er partur af lífinu að tapa. Ég held að öllum hafi einhvern tímann fundist þeir vera misheppnaðir á einn eða annan hátt, ekki endilega í bardaga. Hvernig ætlar maður að koma til baka eftir það? Ég þekki sjálfan mig, ég hef tapað áður. Það var vissulega langt síðan ég tapaði en ég hef trú á minni getu og huganum mínum. Ég veit að Cody er góður en ég veit hvar ég stend með öllum í þyngdarflokknum.“

Það var skítkast á milli þeirra Cruz og Garbrandt og gat Cruz hrósað honum eftir bardagann og sömuleiðis gerði Garbrandt það. Þeir eru þó langt frá því að vera einhverjir vinir. „Það var ágætt að berjast við einhvern sem hefur gott hjartalag. Ég sagði það sem ég vildi um gáfnafar hans og fleira, en hann er með gott hjarta og það er mikilvægt. Njóttu þess að vera á toppnum Cody, þú ert ungur meistari. Það er erfitt en reyndu að halda beltinu. Sjáum hvað þú gerir með þetta.“

Blaðamannafundinn með Cruz má sjá hér að neðan í heild sinni.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular