Dong Hyun Kim er kominn með sinn næsta bardaga. Kim mætir Bandaríkjamanninum Colby Covington í júní og er því hægt að útiloka hann sem næsta andstæðing Gunnars.
Dong Hyun Kim er í 7. sæti á styrkleikalista UFC og var einn af þeim sem John Kavanagh vildi sjá gegn Gunnari í hans næsta bardaga. Hann mun hins vegar fá Colby Covington á UFC bardagakvöldinu í Singapúr þann 17. júní.
Colby Covington er ekki á styrkleikalista UFC í veltivigtinni og er þetta því eiginlega skref niður á við fyrir Kim. Kóreumaðurinn sigraði Tarec Saffiedine í lok síðasta árs en sá er á topp 10 á styrkleikalistanum. Kim sigraði eftir dómaraákvörðun en mörgum þótti Saffiedine eiga sigurinn skilið.
Covington hefur unnið sex af sjö bardögum sínum í UFC og hefur verið að óska eftir stærri nöfnum. Hann reyndi ítrekað að fá bardaga gegn Rafael dos Anjos en án árangurs. Dos Anjos mætir fyrrnefndum Saffiedine sama kvöld í Singapúr.
Eftir sigur Covington á UFC 202 síðasta sumar óskaði hann eftir bardaga við Dong Hyun Kim, Gunnar Nelson eða Demian Maia. Hann er því að fá gamla ósk uppfyllta og verður áhugavert að sjá þennan bardaga milli tveggja glímumanna.