UFC staðfesti fyrr í kvöld endurat Dustin Poirier og Eddie Alvarez. Bardaginn verður aðalbardaginn á UFC on FOX bardagakvöldinu í Calgary í sumar.
Fyrir einu ári og einum degi síðan, þann 13. maí 2017, mættust þeir Dustin Poirier og Eddie Alvarez á UFC 211 í Dallas. Bardaginn var dæmdur ógildur eftir að Alvarez tók nokkur ólögleg hnéspörk í andlit Poirier. Poirier var ósáttur og fannst að Alvarez hefði átt að vera dæmdur úr leik. Poirier vildi ólmur mæta Alvarez aftur en sá síðarnefndi virtist ekki svo spenntur og mætti þess í stað Justin Gaethje síðar á árinu.
Báðir hafa þeir eldað grátt silfur saman eftir bardagann en hafa nú loks samþykkt að mætast aftur. Bardaginn fer fram á UFC on FOX 30 þann 28. júlí í Calgary í Kanada en sigurvegarinn gæti tryggt sér titilbardaga með sigri.