Einhenti bardagamaðurinn Nick Newell fær loksins tækifæri hjá Dana White. Newell verður í Tuesday Night Contender Series í sumar en með góðri frammistöðu þar ætti hann að fá samning hjá UFC.
Nick Newell er 14-1 sem atvinnumaður og átti góðu gengi að fagna í WSOF þar sem eina tap ferilsins kom gegn Justin Gaethje. Newell hætti í MMA árið 2015 en snéri aftur í búrið í mars. Draumurinn hans er að komast í UFC og er hann nú einu skrefi nær því.
Newell fæddist einhentur en á Newell vantar neðri hlutann af vinstri höndinni og endar vinstri höndin rétt fyrir neðan olnboga. Hann hefur aldrei látið það stoppa sig og var í ólympískri glímu frá unga aldri. Í dag er hann afar fær glímumaður og er m.a. svart belti í brasilísku jiu-jitsu.
Hann á þó erfitt með að verjast árásum á vinstri hlið sína og hefur Dana White verið hikandi að semja við hann hingað til. Hann fær þó tækifæri í sumar í Dana White’s Tuesday Night Contender Series. Í fyrra fengum við skemmtilega bardagamenn á borð við Sean O’Malley í gegnum seríuna og verður áhugavert að sjá hvernig Newell mun standa sig þar.