Eins og við greindum frá í morgun féll Jon Jones á lyfjaprófi. Í blóði meistarans fannst kókaín og bendir allt til þess að neysla hans hafi verið regluleg.
Þrátt fyrir að tala oft um að hann sé kristinn maður með góð gildi hafa aðdáendur alltaf haft sínar efasemdir um Jones. Á undanförnum mánuðum hafa æ fleiri tilvik stutt þá tilgátu að Jones sé enginn engill.
Í ófá skipti hefur Jones sett vafasöm myndbönd á Instagram og skömmu síðar tekið þau út. Hann var sakaður um meiðyrði gagnvart samkynhneigðum manni frá Svíþjóð en sagði að Instagram aðgangur sinn hefði verið hakkaður. Í ljósi nýjustu tíðinda má spyrja sig hvort Jones hafi verið undir áhrifum kókaíns þegar hann tók upp þessi myndbönd?
Sagan segir nefnilega að kókínið sem fannst í blóði Jones hafi ekki verið eftir eitt gott partý heldur sé þetta eitthvað sem hann hefur reglulega notað. Það var því sennilega tímabært fyrir meistarann að fara í meðferð og þetta hugsanlega það sem hann þurfti til að taka sig taki.
Eftir að fréttin um lyfjaprófið fór út um allt spruttu upp ýmsar sögur af Jones og partýstandi hans. Blaðamaðurinn Greg Howard eyddi talsverðum tíma með Jones fyrir grein sína um hann og heyrði mikið af orðrómum af kókaínneyslu hans – meira en þessar ásakanir sem margir ungir íþróttamenn fá. Eftir að fréttin braust út fékk hann sms-skilaboð frá heimildarmanni sem er náinn Jones: Can’t believe it took this long for Jon to pop on coke.
Þangað til nýlega bjó Jon Jones í New York en færði sig til Albuquerque til að undirbúa sig fyrir bardaga sína (hann er nýfluttur nú til Albuquerque). Jon Jones á að hafa verið tíður gestur í háskólapartýum í Ithaca College í New York þar sem hann gamnaði sér með ungnum stúlkum og fékk sér í nös. Donald Cerrone, æfingafélagi Jones, hafði svipaða sögu að segja fyrir tveimur árum síðan. Í mörgum af þessum partýum í skólunum voru myndir og myndbönd tekin og hugsanlega gætu þau myndbönd „lekið út“ á næstu dögum. Svo má auðvitað minnast þess þegar Jones klessti Bentley bifreið sína eftir ölvunarakstur en með honum í bílnum voru tvær ungar konur. Jon Jones er giftur þriggja barna faðir.
Lyfjaprófið umrædda fór fram þann 4. desember og lágu niðurstöðurnar fyrir 23. desember. Það þýðir að Jones hefur verið að taka kókaín tveimur til fjórum dögum fyrir lyfjaprófið eða tæplega mánuði fyrir risastóran bardaga.
Það er svo sem aldrei góður tími til að falla á lyfjaprófi en þetta er sérstaklega slæm tímasetning. Fyrir aðeins tveimur dögum síðan var umræðan um hvort Jones væri sá besti frá upphafi – í dag tala allir um kókaínneyslu hans, sannarlega viðsnúningur.
Jones hefur aldrei verið neinn engill þrátt fyrir að hann reyni að koma þannig út. Hann er nú farinn í meðferð og vonandi kemur hann sterkur til baka. Það ótrúlegasta af öllu er þó samt að Jones sé besti bardagamaður heims þrátt fyrir kókaínneyslu og mikið partýstand.