spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFær Gunnar karatestrákinn Stephen Thompson?

Fær Gunnar karatestrákinn Stephen Thompson?

Gunnar Nelson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir

Margir vilja sjá Gunnar Nelson mæta Stephen ‘Wonderboy’ Thompson næst. Miðað við stöðuna í þyngdarflokknum eru fáir í boði og hugsanlegt að af þessu verði.

Gunnar Nelson er ekki mikið fyrir að skora á bardagamenn opinberlega. Eftir sigur hans á Alan Jouban í mars sagðist hann vera til í að mæta öllum þessum topp bardagamönnum en viðurkenndi að það væri gaman að mæta Stephen Thompson.

Í viðtölum eftir bardagann sagði John Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars, helst vilja sjá Gunnar mæta Dong Hyun Kim eða Stephen Thompson. Núna er Kim hins vegar bókaður í bardaga í júní gegn Colby Covington.

Karatestrákurinn sagði í The MMA Hour á mánudaginn að hann væri ekki að hugsa um bardaga gegn Gunnari heldur vildi hann frekar fá einhvern sem er ofar á styrkleikalistanum. Nefndi hann þá Robbie Lawler, Nick Diaz og Carlos Condit sem óskamótherja. Stephen Thompson er nr. 1 á styrkleikalista UFC (á eftir meistaranum Tyron Woodley) og barðist síðast um titilinn í mars.

Fyrr í vikunni var Robbie Lawler hins vegar bókaður í bardaga gegn Donald Cerrone. Enginn veit hvað Nick Diaz mun gera og það sama má segja um Carlos Condit. Það er því ákveðin óvissa um næsta andstæðing Thompson.

Það eru í raun fáir valmöguleikar í boði fyrir Gunnar og Thompson ef við skoðum styrkleikalista UFC í veltivigtinni.

Meistarinn – Tyron Woodley: Mætir sennilega sigurvegaranum úr viðureign Maia og Masvidal

1. Stephen Thompson: Án andstæðings
2. Robbie Lawler: Mætir Donald Cerrone á UFC 213 í sumar
3. Demian Maia: Mætir Jorge Masvidal á UFC 211 í maí
4. Carlos Condit: Hefur ekkert barist síðan í ágúst 2016 og hefur íhugað að hætta
5. Jorge Masvidal: Mætir Demian Maia á UFC 211
6. Neil Magny: Án andstæðings
7. Dong Hyun Kim: Mætir Colby Covington á UFC í Singapúr í júní
8. Donald Cerrone: Mætir Robbie Lawler á UFC 213
9. Gunnar Nelson: Án andstæðings
10. Tarec Saffiedine: Mætir Rafael dos Anjos í Singapúr í júní
11. Kamaru Usman: Mætir Sean Strickland á UFC 210 á laugardaginn
12. Ryan LaFlare: Án andstæðings
13. Jake Ellenberger: Mætir Mike Perry í apríl
14. Santiago Ponzinibbio: Án andstæðings
15. Matt Brown: Án andstæðings og óvíst með framhaldið hjá honum

Gunnar vill eflaust fá andstæðing sem er fyrir ofan hann á styrkleikalistanum enda mun það hjálpa honum að klífa upp listann og nær beltinu. Miðað við listann núna eru það eiginlega bara Stephen Thompson og Neil Magny.

Neil Magny hefur verið að glíma við hnémeiðsli en mun líklegast geta hafið æfingar að fullu í maí. Það væri mjög flottur andstæðingur fyrir Gunnar en það gæti velt á því hvað UFC ætlar að gera með Stephen Thompson.

Hugsanlega gæti UFC bókað Thompson gegn Magny í sumar og Gunnar fengið einhverja af þeim sem eru fyrir neðan hann á listanum. Kamaru Usman berst um helgina og með sigri mun hann sennilega óska eftir bardaga gegn þeim sem eru fyrir ofan hann. Hann hefur áður sagt að hann vilji mæta bestu glímumönnunum í flokknum eins og Demian Maia og gæti Gunnar verið á radarnum hjá honum.

Gunnar og Ryan LaFlare áttu að mætast í Dublin 2014 áður en LaFlare meiddist. Hugsanlega yrði sá bardagi bókaður aftur.

Eins og sjá má er ekki margt í boði fyrir Gunnar. Ef hann fær ekki Magny eða Thompson í sumar þarf hann annað hvort að bíða eftir stórum bardaga eða taka bardaga við andstæðing sem er fyrir neðan hann. En eftir bardagana sem UFC er að setja saman þessa dagana má segja að líkurnar á bardaga gegn Thompson hafi aukist.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular